Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarandstaðan vann á Grænlandi

07.04.2021 - 12:55
Mynd: Inuit Ataqatigiit / Inuit Ataqatigiit
Múte B. Egede, formaður Inuit Ataqatigiit stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Grænlandi, verður líklega næsti formaður landstjórnarinnar eða forsætisráðherra. Flokkur hans fékk flest atkvæði í þingkosningunum sem haldnar voru í gær.

Úrslit í samræmi við kannanir

Það fór eins og kannanir höfðu spáð að Inuit Ataqatigiit eða IA fékk flest atkvæði, um 37 af hundraði atkvæða og 12 af 31 sæti á grænlenska þinginu, Inatsisartut. Flokkurinn er því óumdeildur sigurvegari þingkosninganna. IA bætti við sig fjórum þingsætum og er því í lykilaðstöðu til að mynda nýja ríkisstjórn. Múte Bourup Egede, formaður flokksins, var þakklátur fyrir stuðning kjósenda, sigrinum fylgdi mikil ábyrgð og flokkurinn ætti nú möguleika á að móta framtíð Grænlands næstu fjögur árin.

Ekkert verður af námuvinnslu í Hvannarfjalli

Kosningasigur IA þýðir að ekkert verður af fyrirætlunum um námurekstur í Kuannersuit eða Hvannarfjalli í grennd við Narsaq á Suður-Grænlandi. Flokkurinn var eindregið á móti vinnslunni vegna þess að auk sjaldgæfra verðmætra málma sem þarna er að finna stóð til að vinna úran. Samkvæmt könnun eru rúmlega 60 prósent Grænlendinga andvígir námuvinnslunni.

Siumut bætti við sig en tapaði samt

Stuðningur fráfarandi stjórnarflokks, Siumut, við námuvinnsluna gæti hafa kostað flokkinn atkvæði. Einnig voru innanflokksátök flokknum til trafala, Kim Kielsen, formaður flokksins frá 2014, missti það embætti seint á síðasta ári. Þrátt fyrir að vera nú næst-stærsti flokkurinn á þingi bætti Siumut við sig atkvæðum og tveimur þingsætum. Nýi formaðurinn, Erik Jensen, sagði þegar úrslitin voru ljós að flokksmenn viðurkenndu val kjósenda.

Enginn nýgræðingur þrátt fyrir ungan aldur

 Múte B. Egede, sem verður að öllum líkindum næsti formaður landstjórnarinnar eða forsætisráðherra Grænlands er 34 ára. Þrátt fyrir ungan aldur er hann enginn nýgræðingur í pólitík, hann var formaður ungliðahreyfingar IA og formaður Stúdentaráðs Grænlandsháskóla. Hann tók við sem formaður flokksins fyrir þremur árum. IA verður helst líkt við Vinstri græn af íslenskum stjórnmálaflokkum.