Segir frá til að geta verið til staðar fyrir son sinn

Mynd: RÚV / RÚV

Segir frá til að geta verið til staðar fyrir son sinn

07.04.2021 - 15:02

Höfundar

„Ég er að opinbera og fórna miklu,“ segir Sævar Þór Jónsson lögmaður. Í bók sem kemur út á morgun greinir hann meðal annars frá ofbeldi sem hann varð fyrir í æsku og hvernig hann hefur tekist á við erfið áföll. Ekki eru allir í nærumhverfi hans og fjölskyldu sáttir við frásögnina.

Á morgun kemur í verslanir bókin Barnið í garðinum sem er titill á sjálfsævisögulegri bók eftir Sævar Þór Jónsson lögmann. Í bókinni rekur hann á einlægan og opinskáan hátt erfiða æsku og ýmiss konar áföll, misnotkun, fíkn og feluleik. Hann dregur ekkert undan og hlífir engum, síst sjálfum sér. Sævar þekkja margir úr fjölmiðlum enda hefur hann komið í viðtöl um hin ýmsu dómsmál síðustu árin og mál sem hann hefur verið að vinna að, en þetta er fyrsta bók hans.

„Fyrst og fremst er þetta saga sem ég er að segja, bæði fyrir fólk sem ég hef kynnst og hefur orðið fyrir áföllum og til að hjálpa mér í gegnum eigin áföll svo ég geti verið til staðar fyrir son minn sem hefur líka orðið fyrir áfalli,“ segir Sævar í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. Í starfi sínu vinnur hann með fjölmörgum einstaklingum sem hafa orðið fyrir áföllum í gegnum tíðina. Sævari þykir mikilvægt að opnað sé á umræðuna um áföll og afleiðingar þeirra, og að talað sé um þau á dýpri hátt, ekki síst í  tilfelli karlmanna.

Man það enn þó það séu 35 ár síðan

Í fyrstu línu bókarinnar segir Sævar: „Ég dó árið 1986,“ og þannig hefur hann frásögn á yfirlýsingu um eigið andlát. Þá er hann að vísa í gróft kynferðisofbeldi sem hann var beittur aðeins átta ára sem er atburður sem markar hann fyrir lífstíð. „Ég man það enn í dag þó það séu 35 ár síðan. Ég tengi við margt við þetta tímabil og það er upphafið á að ég glata minni barnæsku. Þá hefst annað tímabil sem fæst börn, vona ég, þurfa að fara í gegnum.“

Fann tilfinningarnar brjóta sér leið upp á yfirborðið í skýrslutöku

Sem ungur maður, í kjölfarið á ofbeldinu, tókst hann á við fíkn og átti meðal annars erfitt með að sætta sig við kynhneigð sína. Hann segir frá þessu í bókinni og hvernig hann hafi upplifað sig einan og einmana. „Það er mjög lýsandi fyrir einstaklinga sem hafa orðið fyrir áföllum. Ég er nýlega búinn að læra orðið áfallastreituröskun og er búinn að vinna í gegnum það.“ Vinna Sævars fólst meðal annars í dagbókarskrifum sem voru grundvöllurinn að bókinni sem hann byrjaði að skrifa fyrir þremur árum.

„Ég skrifa mig í gegnum þessar tilfinningar sem ég upplifi eftir að ég verð réttargæslumaður í einu máli, sem er eitt af þekktari málum í þeim efnum.“ Sævar var réttargæslumaður einstakling sem var beittur kynferðisofbeldi og í skýrslutöku hjá lögreglu fóru atburðir í lífi Sævars, sem hann hafði lengi reynt að grafa niður og gleyma, að krauma undir yfirborðinu. „Eftir skýrslutökuna fattaði ég að það væri ég sem ég þyrfti að fara að vinna í. Í kjölfarið þurfi ég svolítið að horfast í augu við sjálfan mig og mínar tilfinningar og gjörðir, hvað hefur gerst í mínu lífi. Þá fatta ég að ég þurfi að fara í dýpri vinnu og ég lýsi því ég þessari bók.“

Karlar byrgja harminn gjarnan inni

Hann hefur áttað sig á því hve algengt það er að karlmenn tjái sig ekki um það ef þeir eru beittir kynferðisofbeldi. „Ég ætla ekki að gera lítið úr áföllum kvenna en nú er ég að tala um karlmenn, og við erum svolítið gjarnir í að grafa þetta niður með fíknielementum, drykkju og þess háttar sem endar alltaf á einn veg og með ósköpum.“ Sjálfur átti Sævar vin sem svipti sig lífi og segir að margir í kringum mann hafi tekið rangar ákvarðanir sem taka mið af því að þeir hafi ekki unnið úr tilfinningum sínum og áföllum.

Þarf líka að takast á við áföll sonarins og gera hann að manni

Sævar á son með eiginmanni sínum Lárusi Sigurði Lárussyni sem hjónin fengu í hendurnar þegar hann var þriggja ára. Sonur þeirra hafði þá misst móður sína á vofeiflegan hátt. Sævar áttaði sig á að til að geta aðstoðað son sinn að takast á við áfallið þyrfti hann að horfast í augu við sín eigin. „Þá vissi ég að ég þyrfti líka að takast á við hans áföll fyrst og fremst til að gera hann að manni. Til að geta gert það þarf ég svolítið mikið að líta í eigin barm og vinna úr.“

Konurnar í lífinu bjargvættir

Mikilvægur þáttur í því að vera til staðar fyrir son sinn segir Sævar hafa verið að læra að vera til staðar fyrir fólkið í kringum sig, sem hann hefur átt erfitt með. En ekki eru allir af hans nánustu sáttir við að hann fjalli á svo opinskáan hátt um persónulega hluti í bókinni.

„Ég myndi segja að ég væri sanngjarn,“ segir Sævar. „Ekkert af því fólki sem ég hef farið í gegnum lífið með er slæmt fólk að upplagi, þetta er fólk sem hefur mótað mig og auðvtiað haft áhrif á mig.“ Og hann stendur í þakkarskuld við konurnar í lífi sínu, sem hann segir að hafi bjargað sér. „Ömmurnar og fólkið sem sá litla brotna barnið sem í raun þurfti athygli og aðstoð. Án þeirra væri ég ekki hér í dag svo ég er líka að skrifa um mína bjargvætti í lífinu. Mína engla eins og ég segi.“

Án eiginmannsins hefði bókin ekki orðið til

Bókin er skrifuð af bæði Sævari og eiginmanni hans Lárusi og lýsa þeir lífi sínu og kynnum í henni. Bókina byrjaði hann að skrifa einn fyrir þremur árum en þegar hann var búinn að klára fyrsta uppkast og fara í gegnum erfiðar tilfinningar fann hann að hann treysti sér ekki til að fullvinna hana. „Þá voru ákveðnir hlutir í mínu lífi sem ég þurfti að takast á við. Og til að bókin kæmist á endastöð fannst mér viðeigandi að sá sem stæði mér næst, sem er minn eiginmaður, hann tæki við,“ segir Sævar. „Það hjálpaði mér að geta sagt söguna eins og hún er í dag. Án hans og hans aðkomu er ég ekki viss um að það hefði tekist því ég hefði ekki treyst einhverjum manni eða konu úti í bæ til að gera það.“

Skapar sér óvild á meðal þeirra sem standa honum næst

Bókin er að hluta til skrifuð til að hjálpa öðrum að horfast í augu við sinn eigin harm. En til þess færir Sævar fórnir. „Ég er að opinbera og fórna miklu, opna upp mitt persónulega líf og ég er að skapa mér ákveðna óvild á meðal þeirra sem standa mér næst því ég er að segja hlutina eins og þeir eru og það er á minni ábyrgð,“ segir Sævar.

Ekki að tala illa um neinn

Sævar ítrekar að honum þyki afar vænt um sitt fólk og foreldra sína sem gerðu sitt besta og séu harðduglegt fólk. „Þetta er mín saga og mín upplifun. Fólkið mitt hefur kannski aðra sögu að segja og þau hafa rétt á því.“ Það sé ómögulegt að segja sögu eins og þessa þannig að allir verði sáttir og Sævar kveðst hafa áttað sig fljótt á því. „Það er ekki verið að tala illa um neinn eða gera lítið úr neinum en þegar maður er að segja áfallasögu og um sínar upplifanir í lífinu þá verður það aldrei gert þannig að allir segi: Svona er þetta. Það eru ýmsar útgáfur.“

Kom úr skápnum en var enn í feluleik

Í bókinni lýsir Sævar því meðal annars að hann hafi komið út úr skápnum tvítugur en þó ekki almennilega fyrr en löngu síðar. „Ég var í feluleik með sjálfan mig af röngum ástæðum og í raun hef ég gert sjálfur fullt af mistökum sem ég er að axla ábyrgð á. Bókin sé uppgjörið á því meðal annars.“ Það sé algengt að þegar fólk brynji sig í lífinu eftir erfið áföll að það kunni ekki að meta þá sem vilja þeim vel. „Maður kann ekki að vinna úr því. Og í raun er ég líka bara að skrifa sögu þeirra til að nálgast þau og segja: Heyrðu ég gerði mistök í lífinu og ég er til staðar í dag. Það er ykkur að þakka líka.“

Vonast til að geta hjálpað öðrum að opna sig

Þó Sævar sé á góðum stað í dag segir hann að sjálfsvinnu ljúki ekki. „Við þurfum öll að vinna í okkur og ég segi við alla þá sem hafa lent í áföllum, hvort sem það eru konur eða karlar, við eigum aldrei að hætta að vinna í okkur. Lífið gefur okkur ákveðin verkefni, hvort sem það eru svona áföll, sjúkdómar eða hvað sem er.“ Það hjálpar honum í starfi sínu að geta skilið skjólstæðinga sína sem sjálfir hafa lent í áföllum að tengja við þeirra reynslu.

Hann segir að bókin sé engin hetjusaga en hann vonar að hún geti hjálpað öðrum að opna sig. „Það hefur hjálpað fólki og ég hef séð það, ég hef séð kraftaverk þegar fólk heyrir sögu annarra sem það getur tengt sig við. Þetta er mitt framlag í þá umræðu.“

Rætt var við Sævar Þór Jónsson ú Morgunútvarpinu á Rás 2.