Ný sprunga hefur opnast

07.04.2021 - 00:39
Mynd: RÚV / RÚV
Ný gossprunga myndaðist um miðnætti á eldstöðvunum á Reykjanesskaga. Sprungan er á milli upprunalega gossins og þess nýja.

Að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands virðist sem nýja sprungan sé á því svæði sem björgunarsveitarfólk varð vart við jarðsig í gær. Það var um 150 metra langt, um 450 metra norðaustan við upptök eldgossins í Geldingadölum. Gosstöðvarnar eru ennþá lokaðar en til stóð að opna fyrir aðgang að þeim klukkan sex í fyrramálið. Viðbragðsaðilar ákveða í fyrramálið hvort, og þá hvenær, svæðið verður opnað.

Miðað við vefmyndavélina voru nokkrar sekúndur liðnar frá miðnætti þegar nýja sprungan opnaðist. Í myndbandinu hér fyrir ofan má sjá fyrstu andartökin eftir að sprungan myndaðist. Myndbandið er úr vefmyndavél RÚV þar sem sést yfir Meradali.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV