Munur á atvinnutekjum eftir menntun hefur dregist saman

07.04.2021 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Á síðustu tuttugu árum hafa atvinnutekjur þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun hækkað mest, og þeirra sem hafa háskólamenntun hækkað minnst. Þannig hefur dregið töluvert úr tekjumun eftir menntunarstigi. Þetta kemur fram í nýrri greiningu hagfræðideildar Landsbankans.

Frá árinu 2000 fram til 2019 hækkuðu atvinnutekjur allra á vinnumarkaði um 214 prósent, en atvinnutekjur þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun hækkuðu langmest, um 239 prósent. Tekjur þeirra sem voru með starfs- og framhaldsmenntun hækkuðu um 185 prósent og tekjur háskólamenntaðra hækkuðu minnst, um 173 prósent.

 

Um aldamótin síðustu voru meðaltekjur þeirra sem aðeins höfðu grunnmenntun um 75 prósent af meðaltali tekna allra á vinnumarkaði. Árið 2019 voru tekjur þessa hóps komnar upp í 81 prósent af meðaltali allra.

Háskólamenntað fólk var með 35 prósentum hærri atvinnutekjur en meðaltalið á árinu 2000 en árið 2019 voru tekjurnar 17 prósent hærri en meðaltalið. 

Úr 80 prósentum í 45 prósent

„Með öðrum orðum mætti segja að á árinu 2000 hafi háskólamenntað fólk haft 80 prósentum hærri atvinnutekjur en fólk með grunnmenntun, en munurinn hafði lækkað niður í 45 prósent 2019. Úr hinni áttinni mætti segja að fólk með grunnmenntun hafi haft 56 prósent af tekjum háskólamenntaðra á árinu 2000 og væri komið upp í 69 prósent 2019,“ segir í grein hagfræðideildarinnar. 

Tekjur kvenna hækkuðu meira en karla

Einnig er fjallað um að á tímabilinu hafi atvinnutekjur kvenna hækkað hlutfallslega meira en karla: Ef fólki er skipt eftir menntunarstigi hækkuðu atvinnutekjur kvenna í hverjum hópi um 20-30 prósentum meira en karla. Tekjur kvenna með grunnmenntun hækkuðu um 256 prósent en karla um 188 prósent. Atvinnutekjur háskólamenntaðra karla hækkuðu hlutfallslega minnst, um 151 prósent.