Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Maður kallar þetta svifryksvertíð“

07.04.2021 - 08:57
Svifryk í Reykjavík
 Mynd: Fréttir
Svifryk mældist mikið á höfuðborgarsvæðinu í gær. Ráðgert var að þrífa götur í dag en það frestast sökum frostakafla sem nú stendur yfir. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir svifryksvertíðina í fullum gangi.

Vegagerðin og Reykjavíkurborg hvetja fólk til að skilja bílinn eftir heima þegar kalt og þurrt er í veðri og nýta sér aðra fararmáta til og frá vinnu, sé þess kostur. Mikil hætta er á svifryksmengun á þessum árstíma, að sögn Þorsteins Jóhanssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun.

„Þessi árstími, mars, apríl og maí, þá eru oft verstu dagarnir. Maður kallar þetta svifryksvertíð. Eftir veturinn er helmingur bíla á nagladekkjum og bíll á nagladekkjum slítur malbikið kannski tuttugu til fjörutíu sinnum meira en bíll án nagla,“ segir Þorsteinn.

Oft er svifrykið til friðs yfir veturinn, á meðan það eru umhleypingar og götur blautar. Þorsteinn hvetur fólk til að vera meðvitað og fylgjast með svifrykinu í borginni.

„Þegar það koma þurrir dagar eins og í gær, og síðustu daga reyndar, þá þorna göturnar og þetta þyrlast mjög mikið upp. Það tekur það langan tíma að sópa eftir að snjórinn fer, það er mælt í vikum tíminn sem það tekur að sópa. Þannig á svona dögum eins og í gær mætti til dæmis rykbinda. Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa verið að prófa sig áfram með það. En svo snjóaði í morgun svo þessi dagur ætti að verða miklu skárri,“ segir Þorsteinn. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV