Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Landsréttur vísar frá kæru sóttvarnalæknis

07.04.2021 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Landsréttur hefur vísað frá kæru sóttvarnalæknis um dvöl Íslendinga í hinu svokallaða sóttvkíarhóteli við Þórunnartúni. Þetta þýðir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrr í vikunni stendur þar sem ákvörðun sóttvarnalæknis um Íslendingur skyldi dveljast í sóttkví í sóttvarnahúsi var felld úr gildi. Sóttvarnalæknir vinnur nú að gerð minnisblaðs um hvernig skuli haga sóttvörnum á landamærunum.

Fréttablaðið greinir fyrst frá þessu á vef sínum. Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðamaður Landlæknis, staðfestir niðurstöðuna í samtali við fréttastofu. Landsréttur taldi skorta á lögvörðum hagsmunum þar sem fólkið væri ekki lengur í sóttkví.

Kjartan Hreinn segir að Þórólfur Guðnason vinni nú að minnisblaði um hvernig skuli haga sóttvörnum á landamærunum. Ekki er ljóst hvenær því minnisblaði verður skilað en líklega verður það á morgun eða hinn.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu á mánudag að þótt dvöl í sóttvarnahúsi væri að vissu leyti sambærileg þeirri sem fælist í heimasóttkví væri af ýmsum og sumum augljósum ástæðum að telja dvöl þar þungbærari en dvöl í heimahúsi. 

Það hafi því verið brýnt að skýr heimild væri til þeirrar ráðstöfunar að skikka þá í farsóttarhús sem hér ættu heimili og gætu verið í heimasóttkví eins og aðrir landsmenn.

Það er niðurstaða dómsins að þetta ákvæði í reglugerðinni hafi skort lagastoð og því hafi þessi ákvörðun gengið lengra en lög heimila. Viðkomandi einstaklingur hafi fullnægt þeirri lagaskyldu að geta sjálfur verið í sóttkví og var því ákvörðun um að skikka hann til að vera í henni í sóttvarnahúsi felld úr gildi.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að viðkomandi hafi komið ásamt fjölskyldu sinni til landsins frá Frankfurt þann 2. apríl og verið þá fluttur í sóttvarnahótelið við Þórunnartún.  Málið var rekið samhliða sex öðrum kröfum þar sem þess var krafist að fólki yrði leyft að vera í sóttkví heima hjá sér.

Sóttvarnalæknir hefur lýst niðurstöðu héraðsdóms sem miklum vonbrigðum og sagt að hún auki líkurnar á frekari útbreiðslu smita. Hann sagði í kröfugerð sinni til héraðsdóms að aðgerðin gengi ekki lengra en nauðsynlegt væri til að hefta útbreiðslu COVID-19 og vernda lýðheilsu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV