Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jákvæðar viðræður stórveldanna við Íran

07.04.2021 - 06:56
epa09111830 A handout photo made available by the Iranian foreign ministry office shows, Iranian deputy foreign minister Abbas Araghchi (C) during a visual meeting with 4+1 countries over Iran’s nuclear deal (JCPOA) at the foreign ministry office in Tehran, Iran, 02 April 2021. According to foreign ministry office, Iran and 4+1 countries agreed to hold a JCPOA meeting in Vienna next week.  EPA-EFE/Iranian Foreign Ministry Office / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - FOREIGN MINISTRY OFFICE
Íran og stórveldin sem enn eiga aðild að kjarnorkusáttmála við Íran héldu árangursríkan fund í Vín í Austurríki í gær, að sögn þeirra sem fundinn sátu. Al Jazeera hefur eftir Abbas Araghchi, leiðtoga samninganefndar Írans í Vín, að viðræðurnar hafi verið uppbyggilegar og þeim verði fram haldið á föstudag. Ríkin halda þá áfram að leita leiða til þess að endurvekja sáttmálann sem Bandaríkin drógu sig einhliða úr í maí árið 2018.

Mikhail Ulyanov, samningamaður Rússa, skrifaði á Twitter að fundurinn í gær hafi verið árangursríkur. Endurreisn upprunalega sáttmálans komi þó til með að taka nokkurn tíma. Hversu langan veit enginn, að sögn Ulyanovs. Það mikilvægasta við fundinn í gær var að vinna er nú hafin að því að endurvekja samninginn.

Samninganefnd Bandaríkjanna er einnig í Vín. Nefndin, sem leidd er af Robert Malley, sérstökum erindreka Bandaríkjanna í Íran, tók þó ekki þátt í viðræðunum í gær. Íranir hafa gefið það út að þeir vilji engar beinar samningaviðræður við Bandaríkin fyrr en öllum hörðum viðskiptaþvingunum sem Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lagði á Íran verði aflétt.
Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að viðræður Írans við stórveldin hafi verið uppbyggilegar og jákvætt skref.