Hópsmitið kom upp í Mýrdalshreppi

07.04.2021 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimm kórónuveirusmit sem greindust utan sóttkvíar í gær má rekja til hópsmits í Mýrdalshreppi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar eru nú sex manns í einangrun og einn í sóttkví. Fólkið tengist gegnum vinnu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði fyrr í dag að líklega tengist hópsmitið landamærasmiti. Grunur er um að einstaklingur sem framvísaði vottorði um mótefni á landamærum hafi smitast aftur af veirunni eftir komuna til landsins. 

Alls greindust 11 smit innanlands í gær og voru 6 þeirra utan sóttkvíar.

Fjórtán manns eru í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19, sex í Mýrdalshreppi og átta á Selfossi. Samkvæmt tölum á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands eru fimm einstaklingar í sóttkví á Suðurlandi og 66 í skimunarsóttkví eftir skimun á landamærunum.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu margir eru komnir í sóttkví út frá smitunum sem greindust í gær.