Hlutu lífstíðardóma fyrir valdaránstilraun í Tyrklandi

epa09120027 (FILE) - Arrested soldiers who paticipated in an attempted coup d'etat on 15 July 2016 in Turkey, are accompanied by Turkish soldiers as they arrive at the court inside of the Sincan Prison before trial in Ankara, Turkey, 22 May 2017 (reissued 07 April 2021). An Ankara court on 07 April 2021 announced its verdict in a trial against almost 500 defendants accused of charges relating to the failed 2016 coup attempt.  EPA-EFE/STR
Hermenn fylgdu sakborningum í dómsal í dag.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Tuttugu og tveir hlutu lífstíðarfangelsisdóma í Tyrklandi í dag og er gefið að sök að hafa tekið þátt í tilraun til valdaráns árið 2016. Þúsundir hafa hlotið dóma vegna málsins. 

Hinir dæmdu eru allir fyrrverandi hermenn. Reynt var að koma forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, frá völdum sumarið 2016, en heppnaðist ekki. Hlutur um fimm hundruð hermanna í valdaránstilrauninni hefur verið til rannsóknar, þar á meðal hlutur öryggisvarða forsetans.

Einn þeirra tuttugu og tveggja sem var dæmdur til lífstíðarfangelsis í dag var undirofursti sem braut ákvæði stjórnarskrár Tyrklands með því að brjótast inn í ríkissjónvarp landsins og neyða þul til að lesa tilkynningu hersins um valdarán. Dómurinn var kunngjörður í stærsta réttarsal Tyrklands, en hann var byggður sérstaklega til að dæma í málum sem tengjast valdaránum.

248 óbreyttir borgarar létust og tvö þúsund særðust í valdaráninu, þar sem herinn beitti herþotum, þyrlum og skriðdrekum. Tyrknesk stjórnvöld segja valdaránstilraunina runna undan rifjum klerksins Fethullah Gülen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. Þeim ásökunum hefur hann alfarið neitað.

Þúsundir hafa verið dæmd síðan árið 2016, grunuð um að tengjast klerkinum. Þá hefur yfir hundrað þúsund ríkisstarfsmönnum verið sagt upp störfum fyrir sömu sakir. Yfir 2.500 manns úr hernum hafa hlotið lífstíðardóma fyrir valdaránstilraunina. AFP fréttaveitan greinir frá því að hún hafi haft mikil áhrif á landslag stjórnmála í landinu. Fyrr í vikunni sakaði Erdogan yfir hundrað flotaforingja á eftirlaunum um að hafa ýjað að valdaráni eftir að þeir gagnrýndu áform hans um nýjan skipaskurð í Istanbúl.