Hefur aldrei getað horft á Hringjarann í Notre Dame

Mynd: Þór Ægisson/Disney / Samsett

Hefur aldrei getað horft á Hringjarann í Notre Dame

07.04.2021 - 09:50

Höfundar

„Tilfinningin að sitja í barnaafmæli með fullt af börnum og það er verið að grýta tómötum í fatlaðan mann, maður er bara já. Ég hef aldrei klárað myndina,“ segir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir listfræðingur og baráttukona. Hún segir að fötlun í afþreyingarefni fyrir börn einkennist oft af innblástursklámi þar sem fötlunin sé eitthvað sem aðalpersónan þurfi að sigrast á, sem lýsi viðhorfi ófatlaðra handritshöfunda en ekki veruleika fatlaðra.

Fötlun er nokkuð ósýnilegur en í senn augljós hluti fjöldamargra Disney-mynda. Í þættinum Veröldin hans Walts á Rás 1 fjallar Anna Marsibil Clausen meðal annars um fötlun í Disney-myndum, hvernig hún birtist og hvað hún þýðir í grænum sjó og víðar. Anna Marsibil ræddi við Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, teiknara og barnabókahöfund, og Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur, listfræðing og baráttukonu.

Elsa í Frosin er jaðarsett og útlokuð

Bergrún er með ADHD, eða athyglisbrest með ofvirkni, og Inga notar hjólastól og hefur verið síðan hún var þriggja ára. Báðar segjast þær hafa vantað karaktera sem þær gátu speglað sig í, í Disney-teiknimyndum æskunnar. „En á fullorðinsárunum hefur maður frekar verið að endurheimsækja myndir og hugsa: Heyrðu já, kannski er þessi karakter fatlaður,“ segir Inga og nefnir sem dæmi Elsu í teiknimyndinni Frosin, sem er augljóslega fötluð. Hún býr yfir kröftum sem hún hefur ekki stjórn á og er fyrir vikið jaðarsett og útilokuð frá samfélaginu, „og þetta er sett í töfraheimsbúning en hvernig talað er um hennar veruleika er beintengt því hvernig við tölum um veruleika fatlaðs fólks. Á fullorðinsárunum hef ég meira verið að velta fyrir mér þessum lúmsku tengingum.“

Fann fyrirmyndir í heimi Astrid Lindgren

Bergrún Íris segir mikilvægt að börn fái að sjá rétta mynd af raunveruleikanum í bókum og teiknimyndum en ekki einsleita mynd sem veitir ekki öllum pláss.

Sjálf fann hún engan karakter sem hún gat tengt við í Disney-mynd fyrr en hún horfði á Múlan sem barn. „Þá var ég bara: Þetta er smá eins og ég. Þessi æsta týpa með sterka réttlætiskennd sem vill ekki láta segja sér fyrir verkum og mótþróaþrjóskuröskunin er að fara með hana,“ segir Bergrún Íris. Fram að því átti hún auðveldara með að spegla sig í heimi Astrid Lindgren í persónum eins og Emil í Kattholti og Lottu í Skarkalagötu.

Mjallhvít breiðir yfir litlu mennina og segir þeim að fara að lúlla

Þegar að er gáð er fötlun þó til í Disney-myndum en það má spyrja sig hvernig hún er sett fram, hvort fötlunin sé til dæmis notuð í persónusköpun og hvort henni sem slíkri sé ætlað að eiga þátt í að knýja söguna áfram. Kvikmyndin um Mjallhvíti er fyrsta teiknimynd Disney í fullri lengd og hún kom út árið 1937. Þar eru dvergarnir sjö ekki beint eins og smávaxið fólk heldur fremur eins og garðdvergar. Þeir eru fullorðnir skeggjaðir menn en barngerðir í myndinni.

Þegar Mjallhvít hittir dvergana í fyrsta sinn klappar hún höndum og segir ekki: „Þið eruð dvergar,“ heldur: „Þið eruð litlir menn.“ Samt kemur hún fram við þá eins og börn, breiðir yfir þá og þrífur. Sjálfir vinna þeir erfiðisvinnu í námugreftri og koma venjulega heim eftir erfiðan vinnudag, þegar þeir hafa unnið nóg, og slást.

Bergrún Íris segir að vanalega, ekki síst á fyrri tímum, þyki eðlilegast að kona þrífi og eldi fyrir fullorðna menn en Inga Björk bendir á að hún myndi líklega ekki pakka tveggja metra fullorðnum karlmanni í sæng á kvöldin og segja honum að fara að sofa. Mjallhvít sé þannig í hlutverki konunnar sem sinnir heimilinu og þrífur en gangi þeim líka á sinn hátt í móðurstað og barngeri þá.

Minnsti dvergurinn mállaus og klaufskur

Dvergarnir heita allir nöfnum með vísun í þeirra helsta persónueinkenni og persónueinkenni þeirra eru oftar en ekki fatlanir. Glámur, aðaldvergurinn, er aðeins stærri en hinir og hann stamar og er með talgalla. Purrkur virðist vera með drómasýki og Hnerri virðist vera mjög illa haldinn af ofnæmi sem getur flokkast sem fötlun. Minnsti dvergurinn og sá eini sem ekki er skeggjaður heitir á ensku Dopey sem mætti þýða sem heimskur eða kjáni en á íslensku er hann kallaður Álfur. Hann virðist eiga að vera með þroskaskerðingu, er mállaus, klaufskur, með of stóra tungu og er barnslegastur af álfunum.

Inga Björk segir áhugavert hvernig oft sé búið til aðhlátursefni úr karakterum með þroskahömlun og að Álfur sé augljóst dæmi um það. „Maður veltir líka fyrir sér Dóru í Leitinni að Nemó og Guffa. Þetta eru allt karakterar sem hafa þann tilgang að létta stemninguna. Sjáið hvað Guffi er mikill klaufi? Honum tekst aldrei það sem hann ætlar sér.“

„Þetta er ég, klúðrarinn sem klúðrar“

Sjálf segir Bergrún Íris hafa tengt við vissa hluti í fari þessara persóna, Dóru, Guffa, Ólaf í Frosin og andanum í Aladdín. „Þetta er ég, klúðrarinn sem klúðrar,“ segir hún. Uppbyggilegast hefði verið að sjá manneskju gera mistök með áherslu á að það væri allt í lagi.

Þá sé Frosin ákveðið skref fram á við. „Að skoða systurnar út frá andlegum sjúkdómum eða fötlun, maður getur haldið endalaust áfram því Anna sé klárlega mjög ofvirk og hvatvís og með athyglisbrest og hún verður ástfangin á núll einni. Systir hennar er á sama tíma einangruð frá heiminum því það er ekki gert ráð fyrir henni því hún passar ekki inn.“ Það góða við sögulokin, sem Bergrún Íris efast um að hefði verið gert árið 1950 til dæmis, er að hvorug þeirra þarf að lokum að breytast. „Þegar Elsa sættir sig við sjálfa sig og samfélagið tekur henni eins og hún er, þær báðar fá að vera eins og þær eru og uppgötva að veikleikar þeirra eru styrkleikar, þá fáum við happy ending.“

Sjónarhorn ófatlaða samfélagsins

Fíllinn Dúmbó, Elsa í Frosinni og Nemó í Leitinni að Nemó eru öll með fötlun og þau missa öll foreldra sína á einhvern hátt og losna undan oki ofverndunar þeirra. Nemó týnist, Elsa missir sína foreldra en mamma Dúmbós er tekin í burtu því hún er svo árásargjörn gagnvart þeim sem eru vondir við hann. Svo vindur sögunni þannig fram að þau læra að nota fötlun sína og að setja hana fram á þann hátt sem er heppilegt fyrir samfélagið.

Inga Björk segir að þetta sé dæmi um inspiration porn eða innblástursklám, að sýna að fatlað fólk geti gert allt þrátt fyrir fötlunina. „Í mínum huga snýst þetta um sjónarhorn ófatlaða samfélagsins á fötlunina en ekki sjónarhorn fatlaða einstaklingsins. Þetta er linsa frá ófötluðu hliðinni,“ segir hún.

Nemó vissi að hann gæti allt

Nemó, sem var með visinn ugga og synti ekki eins og hinir fiskarnir, hafi til dæmis alltaf vitað að hann gæti gert allt sem hann vildi en pabbi hans ofverndaði hann sem varð til þess að hann braust svo svakalega úr ofverndunarbómullinni að hann lenti í háska.

„Mig langar að sjá Disney-mynd þar sem aðalsöguhetjan er fötluð manneskja og það skiptir engu máli. Það þarf ekki að sigrast á neinu, þetta er ekki harmleikur sem þarf að takast á við eins og í Frosin, þó það séu líka mikilvæg skilaboð þegar við á að krakkar geti sagt: Elsu leið líka illa yfir því að vera fötluð en henni tókst að sættast við sjálfa sig,“ segir Inga.

Gerðu ráð fyrir að hún væri lögð í einelti

Í æsku kom það flatt upp á Ingu sjálfa að sérstaklega fullorðið fólk skyldi ætla henni að vera útundan og miður sín yfir að nota hjólastól þegar hún sjálf upplifði sig aldrei skrýtna eða á skjön vegna hans.

Henni gekk vel í skóla og var vinamörg en var þráspurð af félagsráðgjöfum hvort hún væri ekki örugglega lögð í einelti. „Það voru allir alltaf að gera ráð fyrir að þetta væri miklu meiri harmleikur en ég upplifði sem barn.“ Á unglingsaldri fór hún að átta sig á því hvað í þessu fælust miklir fordómar. „Fyrir mér skipti þetta ekki máli en samfélagið var stöðugt að reyna að koma mér í skilning um það með teiknimyndum og öllum mögulegum skilaboðum að þetta væri harmleikur sem ég þyrfti að sigrast á.“

Karakter í hjólastól hjá Sigrúnu Eldjárn

Það gladdi Ingu Björk þegar hún rakst á barnabók eftir Sigrúnu Eldjárn og sá mynd af persónu í bókinni þar sem hún var í hjólastól úti að leika sér, án þess að það væri gert neitt veður úr fötlun hennar. Hún bara var. „Það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu að sjá karakter í hjólastól á síðunni og vera bara: Hvað gerist og hvernig er textinn? Léttirinn að sjá að þetta skipti engu máli,“ segir hún.

Hún segir að jaðarsettir hópar, hvort sem það eru innflytjendur, fólk með annan húðlit eða hvítan, hinsegin eða fatlað fólk sem dæmi, vilji ekki sérmeðferð sem oft sé talað um að jaðarhópar séu að biðja um. „Við viljum bara vera með. Við viljum ekkert föss, bara að það sé viðurkenning á að við séum til yfirhöfuð.“ Bergrún Íris segir að Sigrún hafi einmitt staðið sig sérstaklega vel í að skapa karaktera með mismunandi húðlit og fatlanir án þess að það sé sérstakur söguþráður um þá staðreynd.

Hefur ekki getað klárað myndina

Ein Disney-mynd situr enn mikið í Ingu og hafði neikvæð áhrif á persónuleika hennar. Það er myndinn um hringjarann í Notre Dame. „Tilfinningin að sitja í barnaafmæli með fullt af börnum og það er verið að grýta tómötum í fatlaðan mann, maður er bara, já. Ég hef aldrei klárað myndina og ekki séð hana síðan ég var fimm ára.“

Þarf að bjarga öllum til að komast undan tómataregninu

Sú mynd, ólíkt flestum Disney-myndum, fylgir ekki hinu hefðbundna mynstri þar sem karlhetjan og kvenhetjan enda saman. Kvasímódó er barngerður í gegnum nokkurn veginn alla myndina, hann er kallaður skepna og frík. Það verður uppgjör í lokin þar sem hans stóru verðlaun eru þau sjálfsögðu mannréttindi að fá að vera með í samfélagi manna án þess að vera grýttur með tómötum. Áður en hann kemst á þann stað bjargar hann borginni, Esmeröldu og Föbusi, ófatlaða manninum í myndinni sem er riddarinn sem Esmeralda ákveður að vera með í lokin.

Hvers vegna byrja aðalpersónurnar ekki saman eins og alltaf?

Inga segir að yfir sögulokum togist á í sér femínistinn og baráttukonan fyrir réttindum fatlaðra því að sjálfsögðu skuldi konur körlum ekkert og Esmeralda hafi mátt velja sér þann kærasta sem hún vildi. Hún hefur lesið mikið um myndina og segir ljóst að Kvasímódó hafi tilbeðið Esmeröldu og sett hana á stall og að heilbrigð sambönd byggi ekki á slíku valdaójafnvægi.

„En þetta er Disney-mynd og við erum vön því að aðalpersónan endi með prinsessunni. Það að það gerist ekki í þessu tilfelli eru fötlunarfordómar,“ segir hún. „Það er ekki femínískur sigur í teiknimynd því í huga þeirra sem þetta skrifar getur Kvasímódó aldrei endað með konu eins og henni.“

Bergrún Íris segir að mögulega finnist einhverjum barnalegt að ætlast til þess að stórfyrirtæki eins og Disney sjái hag sinn í að hugsa út fyrir kassann eða ögra norminu, „en þá gleymist að Disney skapar normið. Það sem þau teikna upp fyrir börnin mín er það sem þau halda að heimurinn sé, og ef hann segir þér að þú sért með hömlun og eigir að vera ósýnilegur þá fara börnin þannig inn í grunnskólann og tala þannig við jafningja sína.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur í þættinum Veröldin hans Walts á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Tilnefnd til barnabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins

Jafnréttismál

Sögurnar sagðar en enginn að hlusta