Glasgow fær græna ljósið fyrir EM en Dyflinni ekki

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Glasgow fær græna ljósið fyrir EM en Dyflinni ekki

07.04.2021 - 16:56
Skosk stjórnvöld hafa staðfest að 12 þúsund áhorfendur fá að mæta á leiki á Hampden-leikvangnum í Glasgow á EM karla í fótbolta í sumar. Samkvæmt upprunalega planinu á Evrópumótið að fara fram í tólf borgum víðsvegar um Evrópu. UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, gaf skipuleggjendum í hverri borg frest til dagsins í dag til að skila inn áætlunum um áhorfendafjölda á leikvöngum.

UEFA gaf það út á dögunum að sambandið vildi hafa eins marga áhorfendur á leikjum EM eins og kostur væri og að þær borgir sem gætu ekki tekið á móti neinum áhorfendum ættu á hættu að missa leiki. 

Það er einmitt staðan sem virðist komin upp í Dyflinni, höfuðborg Írlands, en fjórir leikir áttu að fara fram á hinum stórglæsilega Aviva-velli sem er þjóðarleikvangur Íra. Vegna stöðunnar á faraldrinum treysta írsk stjórnvöld sér ekki til að segja neitt til um mögulega áhorfendur í júní. Leikvangurinn tekur rúmlega 50 þúsund manns í sæti. 

Staðan virðist betri í Skotlandi en Glasgow bætist í hóp með Róm og Amsterdam sem hafa líka gefið grænt ljós á að minnsta kosti 12 þúsund áhorfendur. Þá er búist við að tugir þúsund mæti á Wembley í Lundúnum en þeir eiga undanúrslit og úrslitaleikur EM að fara fram.

Búsist er við því að UEFA tilkynni endanlega leikvanga og leikstaði á föstudaginn.