Geta fundið upptökur af látnum ættingjum

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Geta fundið upptökur af látnum ættingjum

07.04.2021 - 15:11

Höfundar

Ísmús er vefsíða þar sem gamlar upptökur eru varðveittar. Þetta er í raun íslenskur tónlistar- og menningararfur í einum gagnagrunni þar sem þar má finna auk hljóðrita, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta.

Bjarki Sveinbjörnsson er einn af þeim sem standa á bak við Ísmús. Hann segir tilvist gagnagrunnsins í raun hálfgerða tilviljun. Hann og Jón Hrólfur Sigurjónsson höfðu unnið saman að menningarmálum í 25 ár og fannst vanta einn samastað fyrir tónlistararf þjóðarinnar. Þeir höfðu upp á myndum af öllum elstu tónlistarhandritum þjóðarinnar og vaxhólkasafni Jóns Pálssonar og Jón Leifs sem þeir afrituðu og settu inn á vefinn. Þeir fóru svo á Árnastofnun og báðu um afrit af öllu því efni sem tengdist tónlist. Þar löbbuðu þeir út með heilan kassa af segulbandsspólum. Bjarki segir að þeir hafi þarna áttað sig á því að ef þeir myndu ekki afrita allan pakkann yrði það trúlega aldrei gert. „Þá afrituðum við þessar 4000 segulbandsspólur sem að voru þar. Þetta var klippt niður í 40.000 hljóðskrár og sett inn á Ísmús,” segir Bjarki. Hugmyndin hafi þá verið sú að búa til rannsóknagagnagrunn um íslenska tónmenningu og þjóðmenningu. 

Gagnagrunnurinn er öllum opinn og Bjarki segir að í upphafi hafi verið ákveðið að taka ekki gjald fyrir aðgang að síðunni. Það hefur skilað sér í því að fólk á öllum aldri notar síðuna. „Það var ungur drengur á Hornafirði sem skrifaði okkur skeyti um það að hann væri að læra um þulur í skólanum. Kennarinn hafði beðið þau um að fara inn á Ísmús og hlusta á konur fara með þulur. Svo skrifaði hann: „Ég er 16 ára, amma mín dó fyrir 20 árum og ég hitti hana aldrei. En þarna hitti ég hana.” Þá var til upptaka með henni,” segir Bjarki. Fleiri dæmi eru um að fólk finni upptökur af ættingjum sínum á síðunni. Það var kona sem setti sig í samband við Bjarka til að nálgast upptöku af ömmu sinni. Mamma konunnar var að lifa sína síðustu tíma og dóttir hennar vildi leyfa henni að heyra rödd mömmu sinnar í síðasta sinn. 

Bjarki hefur einnig sjálfur séð um upptökur til að setja á síðuna. Þegar honum fannst viðhaldið á kirkjuorgelum landsins illa sinnt tók hann til sinna ráða. „Ég varð öskuvondur og keypti mér gamlan jeppa og keyrði svo í allar kirkjur í landinu. Það var allt saman tekið upp og myndað. Spilaður lítill sálmur,” segir Bjarki og því má í dag finna hljóðupptökur af fjölmörgum kirkjuorgelum á Ísmús.

Nánar var rætt við Bjarka í Morgunútvarpinu á Rás 2