Gera hlé á prófun á bóluefni AstraZeneca á börnum

07.04.2021 - 10:31
epa09089243 A health worker shows a vial of the AstraZeneca's COVID-19 vaccine during a mass COVID-19 vaccination drive in Sanur, Bali, Indonesia, 22 March 2021. Bali's government is planning to vaccinate tens of thousands of people residing in the three major tourist areas of Sanur, Nusadua and Ubud as a first step towards reopening Bali to foreign tourists.  EPA-EFE/MADE NAGI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Prófun á bóluefni AstraZeneca á börnum hefur verið hætt tímabundið eftir að Marcello Cavaleri, yfirmaður bóluefnamála hjá Lyfjastofnun Evrópu, lýsti því yfir í gær að skýr tengsl hefðu fundist milli bóluefnisins og blóðtappamyndunar.

Stofnunin hafnaði fullyrðingum Cavaleri seinna sama dag og gaf það út að rannsóknir á orsakatengslum stæðu enn yfir. Þeim lyki sennilega í dag eða á morgun og þá mætti búast við að stofnunin boðaði til blaðamannafundar. 

Breska ríkisútvarpið hefur það eftir Andrew Pollard, prófessor við Oxford-háskóla sem þróaði bóluefnið í samstarfi við AstraZeneca, að engin merki séu um hættu tengdri prófuninni á börnum, en að hlé hafi verið gert í öryggisskyni á meðan beðið er frekari upplýsinga frá Lyfjastofnun Evrópu. Um það bil 300 börn taka þátt í rannsókninni sem hófst í febrúar með það að markmiði að fá úr því skorið hvort bóluefnið veiti börnum á aldrinum 6-17 ára góða vernd gegn COVID-19.