Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bólusetja 2.300 manns á Norðurlandi á næstu dögum

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Metmagn bóluefnis barst Heilbrigðisstofnun Norðurlands í morgun en til stendur að bólusetja 2.300 manns næstu daga. Í Slökkvistöðinni á Akureyri verða þeir bólusettir í dag sem eru fæddir árið 1951 og fyrr og hafa ekki fengið bólusetningu. Þeir fá bóluefni AstraZeneca, en klukkan tvö í dag hefur Lyfjastofnun Evrópu boðað til blaðamannafundar þar sem tilkynnt verður hvort stofnunin hafi fundið tengsl milli bóluefnisins og blóðtappamyndunar.

Á morgun stendur til að bólusetja sama aldurshóp með bóluefni AstraZeneca á höfuðborgarsvæðinu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali við fréttastofu fyrir hádegi að heilbrigðisyfirvöld færu með gát við notkun á bóluefni AstraZeneca vegna hugsanlegra tengsla við blóðtappamyndun. Ekki hafi verið tilkynnt um slíkar aukaverkanir hjá fólki sem er sjötugt og eldra.

„Ég held að menn geti ekki sannað, menn geta sýnt fram á tölfræðileg tengsl en það er ekki sönnun fyrir orsakasamhengi. En vissulega er áhyggjuefni ef ákveðinn hópur fær ákveðnar alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetninguna. Þessvegna erum við að fara með gát. Þetta hefur einkum verið tengt við aukaverkanir hjá fólki sem er yngra en sextugt og einkum hjá konum. Og þess vegna höfum við haldið okkur við að bólusetja 70 ára og eldri með Astrazeneca, þar sem þessar aukaverkanir hafa ekki sést,“ segir hann.

Er eitthvað fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma sem er frekar útsett fyrir þessum mögulegu alvarlegu aukaverkunum AstraZeneca-bóluefnisins en aðrir?

„Við erum ekki að nota þetta bóluefni hjá fólki yngra en sjötugt, hvort sem það hefur undirliggjandi sjúkdóma eða ekki. Það er hugsanlegt að við færum okkur niður í aldursmörkunum, niður í 65 ára, eins og Finnar gera. Hvort það verða ákveðnar frábendingar fyrir því bóluefni, það er alveg mögulegt. Þess vegna höfum við líka beðið fólk með undirliggjandi sjúkdóma að ráðfæra sig við sína lækna um það hvort það eigi að fá bólusetningu eða ekki en við erum ekki með ákveðin tilmæli um það á þessari stundu. 

 

Á Norðurlandi stendur einnig til að bólusetja á næstu dögum fólk á aldrinum 65-69 ára með undirliggjandi sjúkdóma, með bóluefni Pfizers, og svo heilbrigðisstarfsfólk sem starfar utan stofnana, en það fær einnig Pfizer-bóluefnið.