Arkansas bannar kynleiðréttingarmeðferð barna

Kona með fána transfólks á Captial Trans Pride í Washington, Bandaríkjunum, 2015.
Kona með fána transfólks á Captial Trans Pride í Washington, Bandaríkjunum, 2015. Mynd: Flickr - Ted Eytan
Þingmenn í Arkansas í Bandaríkjunum samþykktu í gær lög sem banna læknum að gera kynleiðréttingaraðgerðir á börnum. Ríkisstjórinn, Asa Hutchinson, neitaði að undirrita lögin en aukinn meirihluti þingmanna kom frumvarpinu í gegn. Ríkið er þar með það fyrsta til að lögfesta slíkt bann.

Hutchinson sagði, þegar hann neitaði að undirrita lögin, að þau færðu ríkinu of mikið vald yfir ákvörðunum ungs trans fólks, fjölskyldna þeirra og lækna. Samkvæmt lögunum er læknum alfarið bannað að gera aðgerðir sem bæta við, fjarlægja eða breyta á einhvern hátt líkamlegum einkennum líffræðilegs kyns barna eins og þau voru við fæðingu. Heilbrigðisstarfsmenn mega búast við ákærum ef þeir veita trans fólki undir 18 ára aldri aðstoð, eða vísa því áfram.

Fleiri ríki eru með svipuð frumvörp í bígerð. Hutchinson segir að Arkansas sé nú í framlínu þess sem hann kallar menningarstríðið í Bandaríkjunum. Þegar hann neitaði að undirrita lögin sagði hann að með samþykkt þeirra væri ríkið að setja ný viðmið um afskipti sín af flóknustu og viðkvæmustu málum er varða ungt fólk. „Ríkið á ekki að grípa inn í öll læknisfræðileg, mannleg og siðferðileg mál," hefur AFP-fréttastofan eftir Hutchinson. Hann óttast að lögin eigi eftir að leiða til þess að fjölskyldur, læknar og fyrirtæki flykkist burt úr ríkinu. Lögin sendi hryllileg skilaboð til trans fólks sem fylgist óttaslegið með.

Réttindasamtökin ACLU undirbúa nú málsókn til höfuðs nýju lögunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV