Ákærður fyrir ógna og hóta barnsmóður sinni í nokkur ár

07.04.2021 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákært karlmann fyrir að hafa ítrekað og á alvarlegan hátt ógnað lífi barnsmóður sinnar, heilsu hennar og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi um nokkurra ára skeið. Landsréttur vísaði fyrir helgi frá tveimur ákæruliðum í málinu auk þess sem hann féllst ekki á upptökukröfu á tveimur Samsung-símum mannsins.

Ákæran á hendur manninum var gefin út í desember. Þegar hún var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness krafðist hann að málinu öllu yrði vísað frá.  Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu en taldi þó rétt að vísa frá tveimur ákæruliðum sem og upptökukröfu ákæruvaldsins á tveimur Samsung-símum mannsins.

Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu fyrir helgi. Með dóminum er úrskurður héraðsdóms birtur þar sem allir ákæruliðirnir í málinu eru taldir upp. 

Þar kemur meðal annars fram að konan hafi starfað sem flugfreyja og er maðurinn sagður hafa hótað því að hringja inn sprengjuhótun ef hún færi í flug sem var hluti af starfsskyldum hennar.  Ástæðan voru ásakanir mannsins um að konan héldi fram hjá honum.

Honum er jafnframt gefið að sök að hafa ógnað lífi og heilsu hennar í júlí 2015 á heimili þeirra. Hann hafi öskrað á hana þar sem hún hélt á dóttur þeirra og kastað til innanstokksmunum.

Konan er sögð hafa hringt á vinkonu sína til að fá hana til að koma sér og dóttur sinni út af heimilinu. Í ákærunni er maðurinn sagður hafa elt þær þrjár, ekið hratt og með ógnandi hætti á eftir þeim, á móti þeim, í veg fyrir þær og við hliðina á þeim. Í ákærunni segir að konunum hafi verið hætta búin þar til þær komust í skjól á lögreglustöð.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að senda konunni mynd af exi gegnum Facebook. Í ákærunni segir að af skilaboðunum hafi mátt vera ljóst að þau beindust að henni og tveimur tilteknum opinberum starfsmönnum sem hún hafði leitað aðstoðar hjá.

Maðurinn er einnig sagður hafa hótað því að rífa úr henni allar tennurnar ef hún færi með vinkonum sínum til Lundúna.  Í ákærunni segir að konan hafi óttast um velferð sína, vakið börn þeirra snemma og farið með þau í Kvennaathvarfið. 

Í ákærunni er manninum jafnframt gefið að sök að hafa ítrekað ekið með konuna á Reykjanesbraut mjög hratt og hótað því að drepa þau með akstri sínum.  Í nokkrum tilfellum, samkvæmt ákærunni, voru börn þeirra einnig í bílnum.

Maður er einnig ákærður fyrir að hafa á árinu 2019 og í janúar á síðasta ári farið inn á samfélagsmiðla konunnar, tölvupóst og síma án hennar leyfis. Hann er sagður hafa skoðað þar, vistað og sent einkasamtöl hennar til þriðja aðila sem og hljóðupptökur og notfært sér upplýsingar af samfélagsmiðlum hennar til að fylgjast með staðsetningu hennar hverju sinni og rekja ferðir hennar.

Saksóknari hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir í ákæru sinni að maðurinn hafi ógnað heilsu og velferð barna sinna og misboðið þeim með háttsemi sinni. Hann hafi sýnt þeim vanvirðingu þannig að andlegri og líkamlegri heilsu þeirra var hætta búin og velferð þeirra ógnað. 

Í einum ákærulið er maðurinn sagður hafa ruðst inn í herbergi sonar síns sem átti erfitt með að sofna, tekið í rúm hans og þrykkt því til.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV