Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Á síður von á breytingum á bólusetningu með AstraZeneca

07.04.2021 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunnar, á síður von á að niðurstaða Evrópsku lyfjastofnunarinnar um að blóðtappar séu afar sjaldgæf aukaverkun bólusetningar með bóluefni AstraZeneca, hafi áhrif á notkun bóluefnisins hér á landi.

Tilkynnt var um þessa niðurstöðu Evrópsku lyfjastofnunarinnar nú síðdegis. Þar kom fram að flest tilfelli blóðtappa eftir bólusetningu hafi verið hjá konum, sem eru yngri en 60 ára.

Sjá einnig: Segja blóðtappa mjög sjaldgæfa eftir bólusetningu

Hlé var gert á bólusetningum með AstraZeneca hér, en það var tekið aftur í notkun í lok mars og nú aðeins boðið þeim sem eru sjötugir og eldri.  

„Það er heilbrigðisyfirvalda í hverju landi fyrir sig að ákveða hvað er gert við þessar niðurstöður, en það var horft til þess að í helsta áhættuhópnum um þessa aukaverkun væru konur, sextíu ára og yngri. En þetta er fágæt aukaverkun, en alvarleg,“ sagði Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunnar, eftir tilkynningu Evrópsku lyfjastofnunarinnar í dag.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali við fréttastofu fyrir hádegi að heilbrigðisyfirvöld færu með gát við notkun á bóluefni AstraZeneca vegna hugsanlegra tengsla við blóðtappamyndun. Ekki hafi verið tilkynnt um slíkar aukaverkanir hjá fólki sem er sjötugt og eldra.