74 ákváðu að fara á sóttkvíarhótelið í gær

07.04.2021 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Alls ákváðu 74 komufarþegar að fara í sóttkví á sóttkvíarhótelinu í Þórunnartúni í gær. Þar eru nú 167 gestir. „Það var töluverð hreyfing á gestafjölda í gær. Það voru einstaklingar að fá úr seinni skimun og aðrir völdu að fara annað,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

„Miðað við þessa tölu í gær þá er alveg töluverður fjöldi sem ákveður að nýta þetta úrræði áfram,“ segir hann en héraðsdómur dæmdi reglugerð um að skikka fólk í sóttvarnahús ólöglega á mánudaginn. Viðbúið er að Landsréttur úrskurði í málinu í dag.

Gunnlaugur segir að langflestir gestir hafi verið jákvæðir gagnvart dvölinni. „Það gengur vel og kannski jafnvel betur núna þegar það er komin niðurstaða í þessi vafamál og þeir sem eru þar eru þá bara þar af algjörlega fúsum og frjálsum vilja,“ segir hann.

Norræna kemur til Seyðisfjarðar í dag með 41 farþega og 16 bíla. Óvíst er hve margir þeirra fara á sóttkvíarhótel sem hefur verið útbúið á Hótel Hallormsstað.

„Það var verið að setja það hótel upp núna um páskana áður en nýjustu vendingar áttu sér stað en hótelið er klárt sem sóttkvíarhótel og mun standa þeim farþegum sem koma með Norrænu í gegnum Seyðisfjörð til boða,“ segir Gunnlaugur.