Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Viðbúið að Landsréttur úrskurði um sóttkví á morgun

Mynd: RÚV / RÚV
Viðbúið er að Landsréttur dæmi á morgun um lögmæti þess að skikka fólk á sóttkvíarhótel. Sárafáir völdu að fara á hótelið í dag þegar það var ekki lengur skylda. Mál fjögurra af þeim sjö sem Héraðsdómur dæmdi í hag í gær fara fyrir Landsrétt. Hin þrjú mál gera það ekki vegna þess að þeir sem þau höfðuðu eru lausir úr sóttkví og hafa því ekki lögvarða hagsmuni af málinu.

Heldur rólegt var í komusalnum í Leifsstöð í dag eftir að vél frá Osló lenti hér á landi. Starfsfólk flugvallarins og lögreglumenn kröfðu fólk um upplýsingar um hvar það ætlaði að vera í sóttkví. Allir þeir sem koma til landsins, nema þeir sem koma frá Grænlandi, verða að sæta fimm daga sóttkví. 

Fyrsta apríl var byrjað að skikka fólk sem kemur frá löndum þar sem mikið er um kórónuveirusmit á sóttkvíarhótelið við Þórunnartún. Tólf sem þangað voru skikkaðir höfðuðu mál og voru mál sjö manns tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur sem úrskurðaði í gær að óheimilt hefði verið að þvinga fólkið til dvalar á sóttkvíarhótelinu. Ástæðan er skilgreining í sóttvarnalögum á sóttvarnarhúsi, í þessu tilviki sóttkvíarhóteli, sem er sú að það sé staður fyrir þá sem ekki eigi samastað hér á landi. Sóttvarnalæknir kærði niðurstöðu héraðsdóms í dag til Landsréttar.

Mál þriggja af sjö manns fara ekki fyrir Landsrétt þar sem fólkið er laust úr sóttkví og á því ekki lengur lögvarða hagsmuni af málinu. Mál fjögurra manna fjölskyldu er því það eina sem fer fyrir Landsrétt. Það barst þangað síðdegis og meðferð hófst í kjölfarið. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofustjóra lýkur meðferðinni ekki í dag. Hafa þarf hraðar hendur því samkvæmt heimildum fréttastofu losnar fjölskyldan væntanlega úr sóttkví á morgun. 

Tæplega fimmtíu manns voru um borð í vélinni frá Ósló og aðeins þrír ákváðu að fara á sóttkvíarhótelið í Þórunnartúni.

„Nei, ég er feginn að sleppa við það. Ég er með séríbúð sem ég get farið í,“ segir Baldvin Fróði Hauksson. 

Hvers vegna viltu ekki vera á hótelinu?

„Bara óþægilegt að komast ekki út og í eigið rúm. Þetta hefði ekkert verið hræðilegt held ég,“ segir Baldvin.

Hvers vegna ákvaðstu að nota sóttkvíarhótelið?

„Það er eiginlega bara þægilegra. Ég er búsett í Noregi en ég er að koma til að vera hjá fjölskyldunni í sumar. Ég á ekki svefnherbergi heima þannig að það er miklu þægilegra að fara á hótelið. Þá er maður ekkert ofan í öðru fólki eða neitt svoleiðis,“ segir Katrín Sunna Brynjarsdóttir. 

Hvernig líst þér á stöðuna eins og hún er núna?

„Vonandi komast þessi mál á hreint sem fyrst. Þessi óvissa í dag er óþægileg,“ segir Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli.

Í dag tóku gildi rýmri reglur á landamærum þannig að fólk frá löndum utan Schengen getur komið hingað ef það getur sýnt fram á að það hafi mótefni.