Varasamt að kvikan brjótist hljóðlega upp án fyrirvara

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Vísbendingar eru um að gosrásin í gígana í Geldingadölum hafi þrengst og kvikan hafi þess vegna leitað upp á yfirborðið í nýju sprungunum sem opnuðust í gær, segir Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur. Erfitt sé að segja til um hvort áfram gýs á báðum stöðum.

„Það eru vísbendingar um að dregið hafi úr ákafa í gosinu, kannski hefur þrengst að gosrásinni sem fæðir gömlu gígana og þess vegna hafi kvikan leitað annars staðar til að brjótast út. Það eru dæmi um að heildarhraunrennsli hafi aukist, eftir því sem gos ílengist, en það er algengara að það dragi úr með tímanum,“ sagði Halldór í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Hann segir litla fyrirvara vera á breytingum í gosinu. Kvikan sé greinilega nálægt yfirborðinu og varasamt hversu hljóðlega og fyrirvaralítið hún geti brotið sér leið upp. Hann segir ekki vísbendingar um að gosið sé á undanhaldi, en ný gervitunglamynd var tekin af svæðinu í morgun.

„Það er kannski ekki mjög líklegt að gosið nái að halda báðum rásum opnum, bæði í gömlu og nýju gígunum í langan tíma, en það er í sjálfu sér ekki útilokað. Og meðan flæðið er tiltölulega óhindrað upp úr þessum gígum eru minni líkur á að kvikan sé að leita annað. Á meðan svo er finnst manni eðlilegt að þetta haldi bara áfram,“ sagði Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur.