Um 65 þúsund bóluefnaskammtar væntanlegir í apríl

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Um 65.300 skammtar eru væntanlegir í apríl af bóluefnum þeirra fjögurra framleiðenda sem hér hafa markaðsleyfi. Mánaðarleg afhending bóluefna eykst því um 160% í samanburði við fyrri mánuði.

Samkvæmt afhendingaráætlun Pfizer er gert ráð fyrir alls 117 þúsund skömmtum hingað í maí og júní, en það er eini framleiðandinn sem hefur staðfest áætlun til lengri tíma.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirliti heilbrigðisráðuneytisins um vikulega afhendingu bóluefna gegn COVID-19 í apríl.

Afhendingaráætlun Pfizer endurspeglar vaxandi framleiðslugetu bóluefnaframleiðenda en Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt nýja framleiðslustaði í Evrópu. 

Fyrstu þrjá mánuði ársins hafði Íslandi borist 75 þúsund bóluefnaskammtar, eða frá því að bólusetningar hófust 29. desember. Það nemur um 25 þúsund skömmtun mánaðarlega að meðaltali.