Tónlistin var sálufélagi og djammið fylgifiskur

Mynd með færslu
 Mynd: Vök

Tónlistin var sálufélagi og djammið fylgifiskur

06.04.2021 - 14:13

Höfundar

Hljómsveitin Vök sendi í dag frá sér myndband við lagið Lost in the Weekend í leikstjórn Einars Egilssonar. Lagið hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu og textinn hefur vakið mikla athygli. Þar er Margrét Rán, söngkona sveitarinnar og höfundur textans við lagið, afar opinská og má segja að textinn sé uppgjör hennar við unglingsárin.

Einar Egilsson leikstýrir myndbandinu og skrifar jafnframt handritið. Myndbandið hefur beina skírskotun í textann við lagið og fjallar um mann sem þolir ekki vinnuna sem hann er í. „Hann bíður spenntur eftir hverri helgi svo hann geti týnt sér í tónlist. Hann er einangraður og finnst hann ekki fá viðurkenningu á því hver hann er. Tónlistin hjálpar honum að finna sjálfan sig og brjótast úr sjálfsköpuðum hömlum. Textinn bauð upp á að fagna fjölbreytileikanum með þessum hætti og hvetja fólk til að hafa kjark til að vera það sjálft,” segir Einar um myndbandið. 

Þegar lagið kom út vakti textinn mikla athygli enda er Margrét Rán ekki vön að vera svo opinská í textagerð. Sjálf er hún afar ánægð með myndbandið og segir það gefa ágætis mynd af hennar eigin unglingsárum. „Lagið fjallar um mína eigin reynslu þegar ég var að koma úr skápnum. Ég þurfti að telja í mig kjark til að koma fram sem sú sem ég var. Tónlistin var sálufélagi minn í þessu uppgjöri við sjálfa mig og djammið var fylgifiskur. Kannski ekki alltaf sá besti en það hjálpaði mér að losa hömlurnar," segir Margrét Rán.

Lost in the Weekend er fyrsta lagið af væntanlegri plötu sem Vök stefnir á að gefa út í byrjun næsta árs. Lagið er jafnframt það fyrsta með Vök síðan platan In the Dark kom út árið 2019.

Hljómsveitina skipa Margrét Rán söngkona og lagahöfundur, Einar Stef gítar- og bassaleikari og Bergur Dagbjartsson trommuleikari. 

Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir neðan. Snorri Engilbertsson fer með aðalhlutverkið. 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

VÖK í Vikunni með Gísla Marteini