Tólf skipverjum bjargað úr háska á Noregshafi

06.04.2021 - 20:56
Erlent · Evrópa · Noregur
Mynd: EPA / EPA
Giftusamlega gekk hjá norsku landhelgisgæslunni í gær að bjarga tólf skipverjum af hollensku flutningaskipi. Það varð vélarvana á Noregshafi, um 130 kílómetra frá landi. Aðstæður til björgunar voru erfiðar, enda vonskuveður.

Fjórir skipverjar höfðu þegar stokkið í sjóinn þegar landhelgisgæslan kom á vettvang og tókst að bjarga þeim. Hinir voru hífðir af þilfari um borð í þyrlu. Skipið flytur olíu og er talin hætta á að það sökkvi. Í dag var reynt að tryggja að olían læki ekki í sjóinn. 

Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá því að til standi að draga skipið til hafnar í fyrramálið. Sérfræðingar í björgunum sem þessum komu frá Hollandi til Noregs í kvöld og verða fluttir á vettvang með þyrlu. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir