Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þrjú smit hafa greinst hjá fólki á sóttvarnahóteli

06.04.2021 - 19:26
Mynd: Skjáskot / RÚV
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttahúss, segir að þrjú smit hafi greinst meðan á dvöl fólks stóð á sóttvarnahóteli síðustu daga. Að auki er beðið niðurstöðu úr einu prófi sem gaf ekki örugga niðurstöðu.

Enn voru um 160 manns á sóttvarnahótelinu í Reykjavík um kvöldmatarleytið í dag. Það eru öllu færri en þeir hátt í 300 sem þar dvöldu þegar mest var. Um 120 fóru í seinni sýnatöku í dag og voru lausir úr sóttkví ef niðurstaðan var sú að fólk væri ekki smitað.

„Það hafa nú komið upp þrjú smit og eitt vafasvar sem við erum að bíða eftir niðurstöðu með,“ sagði Gylfi Þór. Hann sagði að það væri sóttvarnaryfirvalda að meta þörfina fyrir sóttvarnahótel en bætti við: „Þessi þrjú smit hefðu annars komist inn í þjóðfélagið“