Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tengsl milli bóluefnis AstraZeneca og blóðtappa

06.04.2021 - 12:11
epa09113012 Vaccine of Vaxzevria (formerly Covid-19 vaccine AstraZeneca) against COVID-19 at the new mass vaccination center, which is arranged in the Riga Central Market, Latvia, 03 April 2021. Three mass vaccination centers against Covid-19 started operating in Riga on Saturday.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirmaður bóluefnadeildar Evrópsku lyfjastofnunarinnar segir ljóst að það séu tengsl milli bóluefnis AstraZeneca við Covid nítján og blóðtappa. Búist er við tilkynningu frá stofnuninni í dag. Bretar íhuga að nota ekki bóluefnið á fólki undir þrítugu.

Marcello Cavaleri, sem er yfirmaður bóluefna hjá stofnuninni, segir í viðtali við ítalska dagblaðið Il Messaggero, að hann telji tengslin nú vera skýr, en það liggi hins vegar ekki fyrir enn þá hvað í bóluefninu valdi blóðtöppum. Hann gaf í skyn að stofnunin eigi eftir að staðfesta þetta á næstu klukkustundum.

Hann sagði jafnframt að meðal hinna bólusettu séu fleiri tilfelli um blóðtappa hjá yngra fólki en almennt gengur og gerist. Unnið sé að því að fá nákvæma mynd af því hverju þetta sæti en athugun stofnunarinnar sé hvergi nærri lokið.

Evrópska lyfjastofnunin hafði áður gefið út, eftir að nokkur lönd hættu notkun bóluefnisins tíma, að ávinningurinn af notkun bóluefnisins vægi þyngra en áhættan sem af henni hlytist. Þá hefur stofnunin jafnframt sagt að ekkert bendi til tengsla þarna á milli, þó með þeim fyrirvara að frekari athuganir stæðu yfir. Nokkur lönd, þar á meðal Ísland, hafa hætt að gefa yngra fólki þetta bóluefni.

Það eru fleiri en Evrópska lyfjastofnunin sem eru með þetta bóluefni til skoðunar. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa verið með þessi tengsl til ítarlegrar skoðunar hjá sér og Channel four sagði í fréttum sínum í gærkvöld að þar væri verið að íhuga að gefa þetta bóluefni ekki fólki undir þrítugu. Þá hafa Hollendingar hætt alveg að nota bóluefnið tímabundið. 

Evrópska lyfjastofnunin hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um málið. Hlutabréf í AstraZeneca lækkuðu hins vegar um hálft prósent þegar viðskipti hófust með bréf þess í morgun eftir páskaleyfi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist á upplýsingafundi almannavarna ekki vera búinn að sjá þessar upplýsingar frá Lyfjastofnun Evrópu. Hann á eftir að fara yfir gögn frá þeim og meta hvort ástæða sé til að breyta áætlunum um bólusetningu hér á landi.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV