Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sýkingarmáttur veirunnar kallar á hertar aðgerðir

06.04.2021 - 17:53
Mynd:  / 
Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum segir að sýkingarmáttur breska veiruafbrigðisins sem gangi hér nú sé meiri en eldri afbrigða og því þurfi hertar aðgerðir til að sporna við ástandinu. Ef það sé ekki gert aukist líkur á hópsmiti hér á landi. Hann vonar að stjórnmálamenn byggi traustari lagastoð undir aðgerðirnar.

Veiran kom upp um sóttkvíarbrotin

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að ríkið mætti ekki skikka þá í sóttkví í sóttvarnahúsi sem kært höfðu dvölina. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir tilkynnti á upplýsingafundi Almannavarna í dag að dómi Héraðsdóms yrði áfrýjað til Landsréttar. Gera má ráð fyrir að einhvern tíma taki að skera úr um hvort sóttvarnalæknir geti ákveðið hvar fólk á að vera á meðan það er í sóttkví eða hvort fólk eigi sjálft að ráða því.

Sjö flugvélar komu til landsins í dag og af þeim farþegum voru engir  skikkaðir í  sóttkvíarhótel nema erlendir ferðamenn frá hárauðum löndum sem ekki höfðu bókað hér hótel.  Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundinum í dag að ákveðið hefði verið að herða á reglunum vegna þess að fólk hefði brotið sóttkví og það hefði verið veiran sjálf sem kom upp um það.  
 
„Þá höfum við undanfarið verið að finna brotin út af raðgreiningu veirunnar. Þannig að við sjáum hvernig smitin hafa verið og þegar farið er að ganga meira á fólk, sem hefur komið erlendis frá og verið í sóttkví og jafnvel því verið lofað að það verði ekki sektað eða gengið hart fram, að þá segir það frá því hvernig brotin voru.“

Sýkingarmáttur veirunnar er mikill

Magnús Gottfreðsson. prófessor í  smitsjúkdómum, segir að það geti haft alvarlegar afleiðingar að varnir hér á landi nái ekki að hindra að smit berist til landsins.  Veiran hefur breyst:  „Hún hefur breytt aðeins um ásýnd. Hún er meira smitandi sem þýðir að það er meira veirumagn sem er framleitt í öndunarveginum. Það hefur líka sýnt sig í nágrannalöndum að hver einstaklingur, sem er smitaður, smitar fleiri þ.e.a.s. smitstuðullinn er hærri heldur en í þessum eldri afbrigðum sem við vorum að fást við í vetur. Þetta þýðir það að sýkingarmátturinn er sterkari og ef við ætlum að reyna að sporna gegn auknum sýkingamætti þá þarf hertari aðgerðir.“

Reynslan sýni og það sé tölfræðileg staðreynd að ekki fari allir í einu og öllu eftir fyrirmælum. Ekki sé vitað hvenær einhver með lítil einkenni sleppur framhjá. „Og smitkeðjan er farin af stað en uppgötvast ekki fyrr en tveimur eða þremur einstaklingum síðar. Þá er sýkingin kannski búin að dreifa sér talsvert og það er umfangsmeira verkefni að ná utanum hana, sem þýðir að íþyngjandi aðgerðir gagnvart öllum almenningi verði langdregnari og hugsanlega harðari. “ 
 

Tvö til þrjú prósent brjóta sóttkví

Magnús segir að þrátt fyrir þetta sé mjög margt sem vinni með okkur. Flestir séu samviskusamir og fari eftir fyrirmælum og stöðugt bætist í þann hóp sem fær bólusetningu. „En engu að síður þá eru líkur á því að eitthvað í þessa veru, sem ég var að lýsa hér, ef við léttum á þessum kröfum sem þarna  eru gerðar. Það eru kannski 2 til 3 prósent sem ekki sinna þessu nægilega vel og það hefur þessar afleiðingar. Við þurfum öll að borga þann reikning. Það eru ekki bara þessi tvö eða þrjú prósent sem gera það.“

Vonandi sleppum við með skrekkinn

„Við erum í raun og veru að glíma við veiru sem er að breytast á sama tíma og við erum að keppast við að bólusetja.“   

Bólusetningar hafi gengið vel í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það eru sumstaðar vísbendingar um nokkuð mikla aukningu því menn hafi farið of geyst í að aflétta takmörkunum. „Ég held að það minni okkur á að auðvitað þarf að létta á takmörkunum en við þurfum bara að finna rétta tímann til þess og vonandi tekst okkur að ná góðum árangri í bólusetningum og sleppa með skrekkinn. Tíminn mun leiða það í ljós og við verðum bara að sjá hvort stjórnmálamenn bregðast við og reyni að byggja traustari lagastoð undir þessar ráðstafanir sem þarna var áformað að koma á hér.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV