Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Loftgæði hafa aukist verulega í Vogum

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Loftgæði í Vogum á Vatnsleysuströnd hafa stórbatnað og teljast nú hvorki óholl né hættuleg fólki. Loftgæði þar voru skilgreind sem óholl þar fyrr í kvöld vegna mikils brennisteinsdíoxíðs sem þangað lagði frá gosstöðvunum við Geldingadali, og var fólki þar ráðlagt að loka öllum gluggum og kynda vel. Nú teljast loftgæði hins vegar sæmileg í Vogum.

Það þýðir að fullhraustu fólki er engin hætta búin en fólki með astma eða aðra lungna og/eða hjartasjúkdóma er ráðlagt að hafa áfram varann á og forðast mikla áreynslu.

Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir vindátt hafa snúist úr suðaustanátt í austanátt og lítið brennisteinsdíoxíð mælast í Vogum. Þegar líður á nóttina gerist vindur norðanstæðari og mögulegt að einhverja mengun leggi þá yfir Grindavík frá gosstöðvunum. Er fólk þar í bæ hvatt til að hafa varann á og fylgjast vel með framvindu mála.

Með morgninum snýst vindur enn að sögn Birgis og útlit fyrir vestlægar eða breytilegar áttir. Leggur þá mökkinn í austur ef einhver verður, en Birgir telur þó ólíklegt að Sunnlendingum stafi hætta af.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV