Lausn á fráflæðisvanda gæti verið í sjónmáli

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Frá árslokum 2019 hefur verið fjölgað um 90 rúm á Landspítalanum til að bregðast við fráflæðisvanda sjúkrahússins. Vinnuhópar hafa unnið að áætlunum til að bregðast við tillögum átakshóps heilbrigðisráðherra um vandann.

Þetta kemur fram í viðtali Læknablaðsins við Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala.

Hún segir níu vinnuhópa hafa unnið að áætlunum um hvernig mæta eigi tillögum átakshóps heilbrigðisráðherra um lausn á fráflæðisvanda spítalans. Hópur ráðherra var skipaður eftir að vandinn komst í hámæli snemma á síðasta ári, og naut fulltingis tveggja sænskra sérfræðinga.

Í febrúarlok 2020 leystist vandinn að nokkru þegar 60 sjúklingar komust að á hjúkrunarheimili við Sléttuveg eftir að hafa lokið meðferð á Landspítalanum.

Í marsbyrjun á þessu ári stíflaðist bráðamóttakan þótt lítið álag hafi verið vegna COVID-19 og fátt um ferðamenn. Ekki hafi tekist að útskrifa sjúklinga af spítalanum í viðeigandi úrræði.

„90 manns hafa lokið meðferð á Landspítala og bíða eftir að komast annað,“ segir Guðlaug. „Það er stóra málið í þessu öllu saman.“ Hún segir að starfsemin hafi nú verið greind, gerð spálíkön og horft á það sem hindri flæðið. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV