Lætur hjartað ráða för í marokkóskri matargerð

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Lætur hjartað ráða för í marokkóskri matargerð

06.04.2021 - 09:32

Höfundar

„Já, af hverju ekki“, sagði Jaouad Hbib þegar Hálfdán Sveinsson, hótelstjóri á Hótel Siglunesi bauð honum vinnu. „Ég er ævintýragjarn,“ segir hann. „Ef mér myndi ekki líka dvölin þá færi hún bara í reynslubankann,“ segir Jaouad, sem hefur eldað marokkóskan mat á veitingastaðnum Siglunesi síðan vorið 2016.

Hann byrjar að undirbúa kvöldið fyrir hádegi. „Marokkóskur matur er hægeldaður,“ segir Jaouad. „Það á aldrei að vera stress í eldhúsinu og það á að elda eftir hjartanu.“

„Auðvitað tók þetta tíma. Fólk var ekki alveg að kaupa þetta: „Marokkóskur veitingastaður hérna þrjátíu kílómetra frá heimsskautssbaug. Hvað ertu að pæla?“,“ segir Hálfdán. „Síðan síðustu tvö ár hefur verið margra vikna biðlisti eftir borði þannig að þetta hefur spurst rosalega vel út, - enda er hann frábær kokkur.“

Áður en fólk fer að streyma í hús og veitingastaðurinn er opnaður kemur Jaouad aftur til að ljúka við eldamennskuna. 

„Það þarf að gæta að jafnvæginu það þarf að vera samræmi; milli kjöts, fisks, kjúklings og svo kryddanna sem þú notar. Þetta þarf að bragðast fullkomlega.“