Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Komufarþegum býðst áfram að dvelja í sóttvarnahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Fáir yfirgáfu sóttvarnahótelið í gærkvöldi þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld hefðu gefið það út að öllum sem þar dveldu væri frjálst að ljúka sóttkví heima hjá sér. Það var gert eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð um að ríkið hefði ekki mátt skikka á sóttvarnahótelið þá sem kærðu dvölina.

„Það fóru í raun mjög fáir. Það fóru um fimmtán einstaklingar,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, í samtali við fréttastofu.

Heldurðu að fólk hafi samt verið meðvitað um að það mætti fara?

„Já, við byrjuðum þá vinnu strax í gærkvöldi að það var útbúið bréf þar sem þetta var útskýrt. Svo var bara gengið milli herbergja og fólki sýnt það. Það náðist ekki að klára öll herbergin en það er verið að klára það núna í morgunsárið. En mikill minnihluti ákvað að ljúka sinni sóttkví annars staðar.“

Búist þið við að margir fari í dag, aðrir en þeir sem hafa lokið sóttkví?

„Ég bara veit það ekki, það kemur í ljós. Við erum að klára að kynna þetta fyrir fólki hvað þessi úrskurður hefur í för með sér. En hugsanlega fara einhverjir, en hingað til hefur það verið algjör minnihluti.“

En hvernig er það, koma gestir til ykkar í dag eða er bara búið að slaufa þessu?

„Það er ekki búið að slaufa þessu. Nú er staðan sú að fólki býðst að vera í sóttkví á þessum sóttkvíarhótelum. Það er líka íþyngjandi fyrir marga að vera í sóttkví heima. Það setur aðra heimilismenn í ákveðna hættu og setur þeim þrengri skorður.“