Hafa ekki rætt ný lög um sóttkvíarhús í ríkisstjórn

Heilbrigðisráðherra segir mögulega lagasetningu um sóttkvíarhótel ekki hafa verið rædda í ríkisstjórn. „Ég held að þetta hafi verið mjög mikilvægt fyrir sóttvarnir og vernda þessa þjóð fyrir þessari veiru,” segir sóttvarnarlæknir.

Velferðarnefnd Alþingis átti langan fjarfund í dag með fjölda gesta um nýju sóttvarnarreglurnar og niðurstöðu héraðsdóms í gær. Meðal gesta voru heilbrigðisráðherra, sóttvarnalæknir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, lögfræðingar og lögfræðiprófessorar.

Sóttvarnalæknir sagði fyrir fundinn að niðurstaða héraðsdóms væri mikil vonbrigði og að farþegafjöldinn á landamærunum ylli honum áhyggjum. 

„Ef við erum að fara að fá mikið af farþegum hingað þá mun eitthvað undan láta. Þannig að við komum til með að sjá smit hér innanlands. Aukningu í faraldrinum hér innanlands, sérstaklega þegar við erum ekki búin að ná meiri útbreiðslu bólusetninga, ég hef vissulega áhyggjur af því,” segir Þórólfur Guðnason. „Veikleikinn í þessu kerfi er að þetta er fólk sem er með aðsetur hér og íslenska kennitölu sem hefur verið að brjóta sóttkví og við höfum verið að greina og finna. Þannig að þetta er ekkert bara spurning um einhverja erlenda ferðamenn sem ekki búa hér og svo einhverja aðra.”

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tekur að sumu leyti undir orð sóttvarnarlæknis.

„Þetta er raunveruleg áhætta sem við erum að horfast í augu við og það eru raunverulegar ástæður fyrir því að okkar góði sóttvarnarlæknir gerir tillögur um það að aðgerðir séu ennþá markvissari,” segir hún. Varðandi mögulega lagasetningu um að skikka fólk í sóttvarnarhús segir Svandís:

„Löggjafinn er Alþingi þannig að það er á borði þingsins. Þó að ráðherrar geti lagt fram frumvarp, það er alþekkt.”

Heldurðu að það yrði samþykkt? 

Það er ekki tímabært að tala um það. Við verðum að sjá hver niðurstaða Landsréttar verður á morgun. 

Heldurðu að það yrði samstaða innan ríkisstjórnarinnar um slíkt frumvarp? 

Það þarf að koma í ljós. Það er ekki hægt að tala um frumvarp sem er ekki til. 

Og hefur þetta ekkert komið til umræðu eða álita? 

Það hefur ekki verið haldinn ríkisstjórnarfundur síðan í gær.

Formaður Læknafélag Íslands skrifar í dag að Alþingi verði að leiðrétta mistök sín og breyta lögum. Hann segir úrskurð héraðsdóms alvarlega aðför að sóttvörnum og úrræðum sem þurfa að vera til staðar og það sé ámælisvert að einungis einn dómari hafi fjallað um málið, en ekki fjölskipaður dómur með sérfræðingum á sviði sóttvarna. 

Svandís vill ekki tjá sig um þessi skrif formannsins. 

„Það er ekki við hæfi að ég sem ráðherra tjái mig um það hvernig dómstólar vinna úr sínum verkefnum,” segir heilbrigðisráðherra.