Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grænlendingar kjósa til sveitarstjórna og þings

06.04.2021 - 15:36
Mynd: Danmarks Radio / Danmarks Radio
Grænlendingar kjósa í dag bæði til sveitarstjórna og þings. Athyglin í kosningabaráttunni hefur beinst meira að þingkosningunum en samkvæmt skoðanakönnun sem birt var fyrir helgi vinnur stjórnarandstaðan verulega á.

IA stendur vel í könnunum

Könnunin bendir til þess að Inuit Ataqatigiit, IA, fái flest atkvæði og geti orðið í lykilaðstöðu til að mynda nýja stjórn. Þó hefur verið bent á að kannanir hafi vanmetið fylgi stjórnarflokksins Siumut í tvennum síðustu kosningum. Um þriðjungur kjósenda hafði ekki gert upp hug sinn þegar könnunin var gerð og þegar fréttamenn danska ríkisútvarpsins tóku kjósendur tali í höfuðstaðnum Nuuk í gær voru margir enn óákveðnir.

Margir flokkar og flókin staða

Grænlensk stjórnmál eru flókin, það eru tíð skipti á flokkum í stjórn, leiðtogar standa gjarna stutt við í embætti, klofningur flokka er algengur, leiðtogar sem verða undir stofna kannski nýja flokka og sumir flokkar lifa stutt. Það er 31 sæti á grænlenska þinginu Inatsisartut, sjö flokkar eiga þar sæti.

Fimm flokkum spáð þingsætum

Kannanir benda til þess að fimm flokkar komi mönnum að og ljóst er að enginn einn flokkur fær meirihluta þingsæta svo mynda þarf samsteypustjórn eftir kosningarnar. Tveir flokkar eru langstærstir, jafnaðarmannaflokkurinn Siumut og Inuit Ataqatigiit, IA, sem er lengra til vinstri og má hugsanlega líkja við Vinstri græn. Langlíklegast er að nýr formaður landstjórnarinnar eða forsætisráðherra komi úr öðrum hvorum þessara flokka. IA var spáð 12 af 31 sæti í könnun sem birt var fyrir helgi.

Umræður flokksleiðtoga hófstilltar

Hugsanlega hafa kjósendur ákveðið sig eftir umræður flokksleiðtoga í grænlenska ríkissjónvarpinu í gærkvöld. Þær voru hófsamar og stóryrði spöruð, mögulega vegna þess að viðræður um samsteypustjórn eru fram undan. Þar er allt opið því fréttaskýrendur segja að nánast allir geti unnið með öllum. Veður í Nuuk og víðar á Grænlandi er leiðinlegt í dag, kalt, snjókoma og hvassviðri og það gæti haft áhrif á kjörsókn. Kjörstöðum verður lokað klukkað tíu í kvöld að íslenskum tíma.