Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gosstöðvarnar lokaðar almenningi fram eftir morgni

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Stórt svæði umhverfis eldstöðvarnar á Reykjanesskaga var rýmt um leið og gjósa tók úr tveimur sprungum norðaustur af Geldingadölum í hádeginu í gær og verður það lokað almenningi fram eftir morgni hið minnsta. Þórir Þorsteinsson, vettvangsstjóri lögreglu við gosstöðvarnar, sagði í samtali við fréttastofu á miðnætti, að fulltrúar viðbragðsaðila, almannavarna og vísindamanna komi saman til fundar klukkan níu í fyrramálið og fari yfir stöðuna.

Á þeim fundi skýrist vonandi hvenær hægt verður að heimila fólki aðgang að gosstöðvunum á ný. Það hefur því ekkert upp á sig að keyra að gosstöðvunum í rauðabítið og er fólki bent á að bíða frekari upplýsinga. Lögregla og björgunarsveitir verða á vakt við gosstöðvarnar í alla nótt og allan daginn á morgun eins og verið hefur.