Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólk utan Schengen má nú koma til landsins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reglur á landamærum voru rýmkaðar á miðnætti. Fyrstu farþegarnir frá löndum utan Schengen komu í morgun frá Boston. Fólk frá þessum löndum verður að sýna vottorð um að það sé með mótefni gegn kórónuveirunni. Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir erfitt að vinna við það að reglur breytist milli daga. Engir verða skikkaðir í sóttkvíarhótel í dag nema erlendir ferðamenn frá hárauðum löndum sem ekki hafa bókað hér hótel.

„Það sem við gerum í dag er að kynna farþegum sem koma þetta úrræði, sóttkvíarhótelið. Það verður líka farið í að kynna farþegum sem koma seinna að það verði gjaldtaka frá 11. apríl. En ef það koma upp tilvik þar sem okkur grunar að farþegi hafi ekki viðunandi sóttkvíarúrræði þá munum við senda fólkið á sóttkvíarhótelið,“ segir Sigurgeir.

Munið þið senda alla erlenda ferðamenn sem koma frá hárauðum svæðum og búa ekki á Íslandi á sóttkvíarhótel?

„Ekki ef þeir hafa viðunandi úrræði til þess að fara í. Það er þá í samræmi við dóminn. Ef fólk er með hótel t.d. bókað næstu fimm daga, þá getur það verið þar. En ef okkur grunar annað, t.d. ef ferðin er styttri en 5 dagar þá munum við senda fólk á sóttkvíarhótelið,“ segir Sigurgeir.

Hvað finnst þér um að eitt gildi í dag og annað á morgun?

„Það er sjálfsögðu erfitt að vinna við svoleiðis, þegar það eru svona tíðar breytingar með stuttum fyrirvara. Það er afskaplega erfitt að vinna við það. En vonandi kemst einhver festa í þetta núna,“ segir Sigurgeir.

Þá er önnur breyting á landamærunum í dag?

„Já, það tók gildi breyting á reglugerð um för yfir landamæri frá dómsmálaráðherra. Hún tók gildi á miðnætti. Það þýðir að það er létt á ferðatakmörkunum á landamærunum. Fólk frá löndum utan Scengen-svæðisins, eða utan EES og Efta-svæðisins, sem er með bólusetningavottorð eða vottorð um yfirstaðna sýkingu, það  má koma til landsins út á slík vottorð,“ segir Sigurgeir.

Þannig að einhverjir komu í morgun frá Boston?

„Já, með bandarísk bólusetningavottorð,“ segir Sigurgeir.