Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólk hvatt til að hvíla einkabílinn vegna mengunar

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Borgarbúar eru hvattir til að skilja bílinn eftir heima á morgun vegna mikils styrks köfnunarefnisdíoxíðs og svifryks í andrúmsloftinu.

Styrkur svifryks á Grensásvegi mældist 102 míkrógrömm á rúmmetra klukkan tíu í morgun og köfnunarefnisdíoxíðs 28 míkrógrömm á rúmmetra. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar má fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna.

Í mælistöðinni við Bústaðaveg og Háaleitisbraut reyndist styrkur svifryks 104 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 14 míkrógrömm á rúmmetra að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir köfnunarefnisdíoxíð 75 míkrógrömm á rúmmetra. Götur eru þurrar og vindur hægur og samkvæmt upplýsingum hjá Reykjavíkurborg þarf að fresta götuhreinsun vegna yfirstandandi frostakafla.

Búist er við að veður verði svipað áfram og því líkur á að viðlíka mengun verði í borginni seinni partinn í dag og í fyrramálið. Með því að velja annan fararmáta en bíl til að fara ferða sinna verði þeim sem viðkvæm eru fyrir og börnum gert hægara að njóta útivistar.

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða.
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV