Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eingöngu fjallað um lagaheimild en stjórnarskráin nærri

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Það er mat Kára Hólmars Ragnarssonar, lektors við lagadeild Háskóla Íslands, að úrskurður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær snúi eingöngu að lagaheimildinnni sem liggur til grundvallar því að skikka fólk til dvalar í sóttvarnarhóteli. 

Niðurstaðan hafi jafnframt verið sú að skilgreiningin á farsóttarhúsi eins og hún er sett fram í sóttvarnarlögum eftir breytingu í febrúar veitti ekki fullnægjandi stoð til þessarar framkvæmdar.

„Dómarinn fjallar ekki um aðstæður á hótelinu eða nauðsyn þessara aðgerða, eða meðalhóf eða neitt slíkt. Niðurstaðan er sú að reglugerðina skorti lagastoð.“ Kári vill ekki taka svo djúpt til orða að niðurstaða héraðsdóms sýni brotalöm í sóttvarnarlögum. 

„En eftir á að hyggja hefði verið æskilegra að alveg skýrt lægi fyrir til hvaða aðgerða var fyrirhugað að grípa og þá að mælt væri fyrir um þær aðgerðir í lögunum eins skýrt og hugsast getur.“

Gísli Kr. Björnsson lögmaður álítur hins vegar að niðurstaðan sýni brotalöm í sóttvarnalögunum. „Niðurstaðan var á sinn hátt fyrirsjáanleg,“ segir hann og að skiljanlegt sé að stjórnvöld vilji byggja á einhvers konar sóttvarnarreglum sem eiga að ná til almennings.

„Helstu rök sóttvarnalæknis virtust vera þau að vegna þess að ekki væri hægt að fylgjast með hverjir ryfu sóttkví, yrði að vera hægt að setja alla í sama hólfið. Það gengur ekki. Við getum ekki tekið menn og sett þá einhverst staðar inn af því við vitum ekki hverjir þeirra muni brjóta af sér.“

Gísli segir ekki einu sinni vitað hvort einhver brjóti af sér. „Það er ekki fyrr en einhver brýtur af sér sem hægt er að beita einhverjum viðurlögum. Með þessu hafi að mínu mati verið brotin stjórnarskrárvarin réttindi.“

Kári Hólmar segir að sér sýnist honum sýnist að þingmenn hafi að einhverju leyti mismunandi sýn á hvort gert hafi verið ráð fyrir því að skikka mætti fólk í sóttkví samkvæmt lögunum þegar verið var að fjalla um þau.

„Alveg frá því að úrræðið var sett á fót hefur verið til umræðu hvort þarna sé of langt gengið gagnvart réttindum fólks og slíku. Úrskurður Héraðsdóms breytir ekki miklu um þá spurningu, enda niðurstaðan eins og áður sagði algerlega afmörkuð við lagaheimild.“

Hann segir spurninguna um hvort þetta úrræði sé nauðsynleg vera mjög svipaða og var í síðustu viku. „Mér sýndist á úrskurðinum að óumdeilt væri milli allra að fólk þyrfti að fara í sóttkví, þá var bara spurning hvort hægt væri að fara í heimasóttkví eða sóttkví á hóteli.“

Það hafi ekki verið hluti kröfugerðar að sleppa við sóttkví. „Stjórnarskráin er allt umlykjandi, verið er að takmarka réttindi fólks, ferðafrelsi og persónufrelsi sem hægt er að líta á þetta sem frelsissviptingu í skilningi stjórnarskrárinnar.“

Kári segir það vera keimlíkt nauðungarvistun eða einhvers konar varðhaldi. Þetta sé heimil aðgerð í grunninn en til þess þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, það er að segja lagaheimild. Þá sé líka spurning hvort frelsissvipting teljist nauðsynleg.

En hver geti niðurstaða áfrýjunar orðið?

„Í fyrsta lagi kann að vera að dómarar Landsréttar hafi aðra sýn á þessar spurningar en dómarinn sem dæmdi í héraði og í öðru lagi er að mínu viti hugsanlegt að ekki teljist lögvarðir hagsmunir til að leysa úr málinu á æðra dómstigi.“

Kári bendir á að þeir fimm dagar sem sóttkvíin stendur yfir séu senn liðnir.„Þetta ágæta fólk verður vonandi laust allra mála hafi það ekki smitast. Þá hefur enginn lögvarða hagsmuni af því hvort eigi að sleppa þeim úr farsóttarhúsi.“

Hann segir engar heimildir í lögum til að slaka á kröfum um lögvarða hagsmuni. „Mér er ekki kunnugt um heimildir til að fá slík svör, sem væru afar gagnleg, án tengsla við einhver tiltekin mál eða mál tiltekins einstaklings. Slíkar spurningar eru kallaðar lögspurningar og er yfirleitt vísað frá dómi.“

Gísli bendir á að mál af þessu tagi vera að koma upp víðar en hér og áhugavert verði að sjá hvort einhver munur verði á niðurstöðunni.