Mynd: Óðinn Svan - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
Akureyrarstofa vill varðveita vegglistaverk Margeirs
06.04.2021 - 13:56
Stjórn Akureyrarstofu hefur lýst yfir áhuga á að varðveita verk eftir listamanninn Margeir Dire á húsvegg í Listagilinu á Akureyri. Safnstjóra Listasafnsins á Akureyri hefur verið falið að ræða við aðstandendur og vini Margeirs auk KEA, sem á húsvegginn, um hugsanlegt samstarf. Margeir, sem ólst upp á Akureyri, lést aðeins 34 ára fyrir tveimur árum.
Bærinn vill taka þátt í að varðveita verkið
Þetta kemur fram í bókun stjórnar Akureyrarstofu sem fundaði um málið 25. mars. Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, kynnti bæjaryfirvöldum hugmyndina á fundinum og þau tóku vel í áformin. „Stjórn Akureyrarstofu lýsir yfir áhuga á þátttöku í að varðveita verkið og felur safnstjóra að ræða við aðstandendur og vini Margeirs og KEA sem er eigandi húsveggjarins um hugsanlegt samstarf,“ segir í bókun.
„Alveg hægt að lappa aðeins upp á það“
Hlynur lýsti yfir áhuga á að listasafnið kæmi að verkefninu í frétt RÚV 18. mars. „Það væri auðvitað alveg hægt að lappa aðeins upp á það og ég er viss um að einhver sko, vinur hans, gæti gert það,“ sagði Hlynur.
Sjáið þið fyrir ykkur, á Listasafninu að koma eitthvað þessu ef af verður?
„Já, ef þess verður óskað þá erum við alveg til í það.“
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV