Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tvær nýjar sprungur og hraunið rennur í Meradali

05.04.2021 - 14:05
Mynd: Sigurður Kristján Þórisson / RÚV
Önnur minni sprunga hefur bæst við skammt vestur af þeirri sem opnaðist í hádeginu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir nýju sprungurnar ekki endilega koma á óvart.

Sama kvika

Nýju sprungurnar eru um sex hundruð metra norðaustur af gígunum og hraunið rennur ofan í Meradali. Þyrlu Landhelgisgæslunnar er flogið yfir svæðið til að aðstoða við rýmingu þess og tveir sérsveitarmenn um borð til aðstoðar.

„Þetta er bara næsti kafli í þessari atburðarás. Í sjálfu sér kemur þetta ekki á óvart, þetta var einn af þeim möguleikum sem voru í kortunum, að kvikan fengi framrás á nýjum stað og þetta hefur gerst áður í fyrri gosum,“ segir Páll í samtali við Frey Gígju Gunnarsson fréttamann.

Hann segir fólk verða að hafa í huga að þetta séu orðin mörg kvikuinnskot en þetta sé sennilega sama kvikuinnskot og hefur fóðrað gosið í Geldingadölum: „Væntanlega mun draga úr því gosi núna.“

Breytingar á gosóróa í morgun

Páll segir að hann hafi tekið eftir því í morgun að það hafi dregið úr því gosi í morgun og um tíu leytið hafi sést breytingar á gosóróanum.

Þetta sé nýr kafli í sögu Reykjanesskaga því þarna hafi ekki gosið síðan 1240, á dögum Snorra Sturlusonar. „Og það hefur ekkert verið að draga úr spennunni í þessari sögu heldur verður hver kaflinn æsilegri en sá á undan.“

Stjórnstöð almannavarna hefur verið virkjuð í Skógarhlíð og þar ráða sérfræðingar almannavarna ráðum sínum en ekki er sams konar viðbúnaður og þegar gosið hófst 19. mars. 

Myndskeiðið sem fylgir fréttinni tók Siebrand Dijkstra