Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Þetta getur gerst án nokkurs fyrirvara“

05.04.2021 - 16:39
Mynd: Veðurstofa Íslands / Veðurstofa Íslands
Nýju sprungurnar norðan við Geldingadali gerðu ekki boð á undan sér. Björn Oddsson jarðeðlisfræðingur segir að sprungurnar séu þó samkvæmt einni sviðsmyndinni sem Vísindaráð hefur gert ráð fyrir, og Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir ljóst að atburðarásinni sé ekki lokið. Fimm eða sex rúmmetrar af kviku renna úr sprungunum á hverri sekúndu.

Lítur enn sakleysislega út

„Við fyrstu sýn er þetta eins og tvær sprungur. Um 50-100 metrar sú minni, sennilega nær 50, og 100-150 metrar sú stærri. Þetta rennur mjög hratt niður í gil sem liggur niður í flatann í Meradölum. Þannig að þetta lítur allt sakleysislega út eins og er,“ segir Björn Oddsson í viðtali við Sunnu Valgerðardóttur, sem sjá má í spilaranum hér að ofan. 

„Þetta er lítið og sætt, eins og upphafið að þessu gosi. En það er alltaf forgangsatriði að staðsetja sprungurnar og áætla svo hvert hraunið rennur,“ segir hann. 

Nú virðist hafa sljóvgað í syðri gígnum í Geldingadölum, þeim stærri: „Og það má ímynda sér að þetta tappi af því streymi. Það er smá lægð í landslaginu hérna þannig að það má kannski gera ráð fyrir, ef þetta heldur svona áfram, að það opnist nær okkur eða fjær okkur. Þetta er bara ein af þeim sviðsmyndum sem Vísindaráð hefur gefið út, að það opnist sprunga utan við Geldingadali,“ segir hann.

Það var enginn fyrirvari, þetta sást bara?

„Það var enginn fyrirvari þannig séð, en það er nú oft þannig þegar skjálftafræðingar fara og grafa dýpra, að þeir finna einhver merki. En það komu engar viðvaranir og þetta höfum við séð áður, eins og á Fimmvörðuháli. Og eitt sem við þurfum að hafa í huga þegar fólk er að skoða svona eldgos að þetta getur gerst án nokkurs fyrirvara.“

„Hraunið rennur frekar hratt undan þessu, niður gilið, svo að það er aðeins hægari uppbygging gíga en var í Geldingadölum. En því meiri massi sem fer í gilið og staldrar við, því meiri mótstaða verður kannski. Svo verðum við að sjá hvort þessi gangur sem fæðir gossvæðið finni sér aðrar leiðir upp,“ segir Björn.

„Verðum að hafa augun hjá okkur“

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að nokkuð hafi dregið úr virkni í Geldingadölum en þó hafi hraunflæði í kerfinu öllu aukist. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

 

„Þetta byrjar undir hádegi og það var farið að draga af Geldingadalagosinu þegar þetta byrjaði. Í heildina, þessi nýja sprunga er 200 metra löng og stefnir aðeins norðar en hin sprungan gerir, aðeins austan við norður. Fylgir gamalli brotalínu. Hraunið rennur niður í Meradali og var komið um 900-1.000 metra á tveimur og hálfum eða þremur tímum. Það er að byrja að breiða hægt úr sér og okkur sýnist að það hafi verið komnir 50-60 þúsund rúmmetrar upp úr þessari nýju sprungu eftir tvo og hálfan tíma og hraunrennslið um 5-6 rúmmetrar á sekúndu.“

Enn gjósi í Geldingadölum en eitthvað minna en áður. Í heildina hafi bætt í kvikurennsli. „Og heildarrennsli í kerfinu öllu er kannski 7-10 rúmmetrar á sekúndu,“ segir hann. „Þetta segir okkur að þessi atburðarás er ekkert búin og við verðum að hafa augun hjá okkur,“ segir hann.