Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórnvöld máttu ekki skikka fólkið í sóttvarnahús

Sóttkvíarhótel
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði undir kvöld að ríkið mætti ekki skikka þá í sóttkví í sóttvarnahúsi sem kærðu dvölina. Þrjár af fimm kærum sem hafa borist vegna þessa voru teknar fyrir dóm í gær og varðar úrskurðurinn þessi þrjú mál.

Kærurnar voru lagðar fram á þeim grundvelli að um ólöglega frelsissviptingu væri að ræða. Í gagnkröfu sóttvarnalæknis segir að það sé mat bæði hans og heilbrigðisráðherra að aðgerðin sé lögleg og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til að vernda lýðheilsu.

Með úrskurðinum er dæmd ólögmæt sú ákvörðun að skylda fólkið sem kærði til að taka út sóttkví í sóttvarnahúsi, enginn ágreiningur er um skyldu fólksins til að sæta sóttkví.

Afmörkuð tilvik

Skúli Magnússon dómstjóri segir að tilvikin sem úrskurðað hafi verið um séu afmörkuð. „Eftir því sem ég best veit lúta þau öll að fólki sem hefur komið hingað til lands en er með lögheimili hér og er með aðstæður til að vera í sóttkví heima hjá sér. Og úrskurðirnir lúta einungis að spurningunni hvort fólkinu sé skylt að taka út sóttkví í sóttvarnahúsi eða hvort það geti tekið hana út heima hjá sér eða á öðrum stað sem uppfyllir skilyrði. Það var enginn ágreiningur um að fólkið ætti að sæta sóttkví sem uppfyllir skilyrði,“ segir hann. 

En telurðu að úrskurðurinn hefði farið á annan veg ef fólkið byggi ekki hér á landi?

„Niðurstaðan er bundin við þessi mál og í þeim öllum er um að ræða fólk með íslenskt lögheimili og það var ágreiningslaust að fólkið hefði aðstæður til að taka út sóttkví heima hjá sér. Úrskurðirnir taka ekki til annarra aðstæðna.“

Og hvaða áhrif hefur þetta? 

„Nú þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um það hvort þau telji ástæðu til að breyta reglugerðinni og jafnvel gera lagabreytingu til að styrkja þennan lagagrundvöll.  Þingið þarf þá að koma saman og fjalla um það.“ 

Þau sem kærðu geta lokið sóttkví heima

Jón Magnússon, lögmaður eins þeirra sem kærðu skyldudvölina, segir að umbjóðandi hans geti nú gengið út og lokið sóttkvínni heima hjá sér.

„Hún er laus úr sóttvarnarhúsinu sem hún var skylduð til að fara í þegar hún kom til landsins,“ segir hann. 

Er þá öllum sem þar dvelja frjálst að labba út?

„Ég get ekki fullyrt um það. Þetta á fyrst og fremst við um hennar mál. Hún hefur lofað að sætta sig við ákvæði sem gilda um sóttkví í heimahúsi og fylgja öllum þeim reglum sem þar gilda. Þannig að spurningin snýst ekki um það. Hún snýst fyrst og fremst um það hvort það sé lagaheimild fyrir því að fólk sem á heimili hér sé skikkað til að fara í sóttkví í sóttvarnarhúsi. Og það er það sem vinnst í þessu máli. Fólk getur tekið sóttkvína heima hjá sér, allavega umbjóðandi minn,“ segir hann. 

Skemmd reglugerð

Ómar Valdimarsson lögmaður rak eitt málanna og gerir ráð fyrir að umbjóðandi hans fari heim til sín í dag og ljúki þar sóttkví. Hann segir að úrskurðirnir sem hafi verið kveðnir upp í dag séu bundnir við þá einstaklinga sem sóttu málin. „Úrskurðurinn fjallar um að þessir aðilar sýndu fram á að þeir gætu sinnt sóttkví heima hjá sér, og það eru vísbendingar um að þetta kunni að hafa fordæmisgildi fyrir aðra sem búa við sambærilegar aðstæður en ég ætla ekki að fullyrða um að svo sé, með óyggjandi hætti.“

Þurfa stjórnvöld þá ekki að teikna reglugerðina upp á nýtt?

„Jú, hún er skemmd þessi reglugerð, hún er ónýt. OG það er ekki hægt að beita henni með sama hætti í framhaldinu. Það er væntanlega fjöldinn allur af fólki sem vill úrlausn sinna mála. Og ég tel að það væri skynsamlegt fyrir ríkið að bregðast fljótt við.“