Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Seljendamarkaður og metin stráfalla á fasteignamarkaði

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Það er slegist um eignir á fasteignamarkaði hvert metið slegið á fætur öðru. Kona sem keypti íbúð án þess að skoða hana segir að fólk fái engan umhugsunarfrest, góðar eignir rjúki út. 

Framboð í sögulegu lágmarki

Það má kannski tala um fordæmalausa tíma á fasteignamarkaði. „Í raun og veru er markaðurinn það fjörugur að hvert metið er slegið á fætur öðru,“ segir Ólafur Sindri Helgason, aðalhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Framboð á eignum hefur aldrei verið minna, það voru 4000 eignir í boði á landsvísu í fyrravor en nú eru þær um 2000. Á höfuðborgarsvæðinu geta kaupendur valið úr 940 eignum, í fyrravor voru þar 2200 eignir til sölu.  Vaxtalækkanir hafa stóraukið eftirspurn, hlutfall óverðtryggðra lána hefur aldrei verið hærra, met yfir fjölda kaupsamninga hafa fallið í hverjum mánuði frá í haust og sölutími íbúða er í lágmarki. Að meðaltali seljast íbúðir á landsbyggðinni á 75 dögum en íbúðir á  höfuðborgarsvæðinu seljast á 45 dögum. „Það það mikil eftirspurn á markaðnum að fólk er að kaupa íbúðir án þess að skoða þær mjög vel, fólk er að kaupa íbúðir án fyrirvara í kauptilboðum, það er í raun slegist um þessar íbúðir og það er verið að yfirbjóða kaupendur.“ Nú selst um fimmtungur eigna í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði, sérbýlið er enn eftirsóttara og 26% eigna yfirboðnar. Farið er yfir stöðuna á markaði í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 

Keypti íbúð án þess að skoða

Dæmi eru um að fólk hafi keypt íbúðir án þess að skoða þær. Guðmunda Björnsdóttir hefur búið erlendis í nítján ár, seinast í Þýskalandi. Í ár ákváðu hún og maðurinn hennar að flytja heim, í raðhúsíbúð í Hafnarfirði, og þau þuftu að hafa hraðar hendur. „Í raun og veru var ekkert annað í stöðunni heldur en að kaupa áður en við kæmum heim, ef við fyndum eitthvað, svo finnum við þetta hús og sendum fjölskylduna á opið hús, tveimur dögum seinna vorum við með samþykkt kauptilboð á eigninni. Góðar eignir bara fljúga út þannig að þú hefur í raun engan umhugsunarfrest,“ segir Guðmunda, hún leggur stund á nám til löggildingar fasteignasala við Háskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á fasteignamarkaðinum.

Seljendamarkaður

Guðmunda segir engum blöðum um það að fletta að nú sé seljendamarkaður. „Ég get ekki ímyndað mér betri kringumstæður fyrir seljendur; lágir vextir, lítið framboð og bara allir æstir í að kaupa.“ Ólafur Sindri tekur heilshugar undir þetta, „það er klárlega seljendamarkaður í dag“.

Verðhækkanir hljóti að ná hámarki 

Það er mikil eftirspurn, lítið framboð og Samtök Iðnaðarins segja færri íbúðir í byggingu en stefnt var að, þær hafi ekki verið færri í fjögur ár. Það kemur kannski ekki á óvart að verðið skuli fara hækkandi en hversu lengi getur það hækkað? „Það hlýtur að koma að því að verðhækkanir nái einhverju hámarki, að fólk sætti sig hreinlega ekki við það verð sem er ríkjandi, ef það hækkar mjög hratt.“ Hann segir ómögulegt að segja til um hvenær það gerist. 

Það er að ýmsu að hyggja. Ólafur Sindri segir sérstakt að fólk sé tilbúið að auka verulega við skuldir sínar á krepputíma. Vaxtaumhverfið getur breyst á næstu árum og þá lenda kannski einhverjir í vandræðum með afborganir en þeir sem bíða með að kaupa og horfa á verðið hækka hætta kannski á að eiga ekki fyrir útborgun í framtíðinni ef innistæðan á sparireikningnum hækkar ekki í takt við fasteignaverðið. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV