Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Færri í Geldingadölum í dag - kuldi í kortunum á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Töluvert færra fólk lagði leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum á páskadag en í liðinni viku. Opnað var fyrir umferð að gosstöðvunum á hádegi, en þær höfðu þá verið lokaðar almenningi síðan á föstudagskvöld. Leiðindaveður var við gosstöðvarnar í dag en umferðin gekk að mestu áfallalaust að sögn lögreglu.

Rýmingu svæðisins lauk um miðnæturbil og verður opnað fyrir umferð á ný klukkan sex í fyrramálið. „Og því verður lokað aftur klukkan sex síðdegis, þannig að þetta verður bara eins og þetta hefur verið undanfarna daga,“ sagði Guðmundur.

Aðspurður um veðurútlit á gosstöðvunum á morgun segir Guðmundur það eilítið betra en síðustu daga, „en það verður áfram mjög kalt. Þannig að fólk sem ætlar að fara á svæðið, ég bið það bara um að búa sig mjög vel og gera ráð fyrir miklum kulda og vindkælingu.“  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV