Bólusetja um tíu þúsund á höfuðborgarsvæðinu í vikunni

05.04.2021 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur boðað bólusetningu um það bil tíu þúsund manns í vikunni. Öll þrjú bóluefnin sem hafa borist hingað til lands verða notuð, frá Pfizer, AstraZeneca og Moderna.

Þrír bólusetningardagar í Laugardalshöll

Á miðvikudaginn, þann 7. apríl, fá þeir seinni Pfizer-sprautuna sem fengu þá fyrri fyrir 18. mars. Á fimmtudaginn hefst bólusetning næsta aldurshóps í röðinni þegar allir fæddir 1951 og fyrr verða bólusettir með bóluefni AstraZeneca. Og á föstudaginn verður heilbrigðisstarfsfólk sem starfar utan stofnana bólusett með bóluefni Moderna. Bólusetning fer fram í Laugardalshöll alla þrjá dagana. 

Í apríl stendur til að bólusetja um það bil tvo þriðju þeirra sem eru á aldrinum 60-69 ára, samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda, og tæpan helming þeirra sem hafa undirliggjandi langvinna sjúkdóma. 

Fleiri en 50 þúsund bólusettir

Alls hafa 50.259 Íslendingar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni og næstum helmingur þeirra er fullbólusettur, þar af um það bil 96 prósent allra sem eru eldri en 80 ára. Bólusetning er hafin hjá 70 prósentum fólks á aldursbilinu 70-79 ára. 

Enn hafa langflestir verið bólusettir með bóluefni bandaríska lyfjarisans Pfizers, um 28 þúsund manns. Næstflestir hafa fengið bóluefni bresk-sænska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca, um 17 þúsund. Og rúmlega fjögur þúsund hafa verið bólusettir með bóluefni Moderna.