Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lokað þinghald í sóttkvíarmálinu

Sóttkvíarmálið
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - Ljósmynd
Klukkan þrjú hófst fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafa Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um staðfestingu ákvörðunar um sóttkví í sóttvarnahúsi var tekin fyrir. Fjórar kærur fólks sem dvelst á sóttkvíarhótelinu hafa borist og eru nú þrjá þeirra til meðferðar. Þinghaldið er lokað að kröfu Reimar Péturssonar, eins lögmannanna, en hinir tveir lögmennirnir þeir Jón Magnússon og Ómar R. Valdimarsson höfðu sammælst um að þinghaldið yrði opið.

Sammælst hafði verið um það við þá fréttamenn sem voru viðstaddir að nöfn málsaðila kæmu ekki fram í fréttaflutningi en Reimar sagði að vegna eðlis málanna yrði þinghaldið að vera lokað.

Eftir fyrirtöku tekur við munnlegur málflutningur og síðan má vænta úrskurðar.

Ákvörðunin um að óbólusettir farþegar sem koma frá tilteknum áhættusvæðum skuli sæta sóttkví á sóttkvíarhóteli hefur reynst umdeild.  Í kröfugerð sóttvarnalæknis vegna málsins kemur fram að það sé mat hans og heilbrigðisráðherra að aðgerðin gangi ekki lengra en nauðsynlegt er til að hefta útbreiðslu COVID-19 og vernda lýðheilsu. 

Tilgangurinn sé í samræmi við meðalhóf og brjóti ekki í bága við stjórnarskrá.