Íbúa dreymir um samgöngubætur en vilja halda skólum

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Í sumar og haust verður kosið um sameiningar í 11 sveitarfélögum. Þetta eru fjögur sveitarfélög á Norðvesturlandi, tvö á Norðausturlandi og fimm á Suðurlandi. Í öllum kosningunum gildir það sama, íbúar í hverju sveitarfélagi þurfa að samþykkja sameiningu svo af henni verði. Ef íbúar á einum stað fella, verður ekki sameinað í hinum sveitarfélögunum á svæðinu.

Byrjum á Norðvesturlandi, þar gengur sameiningaráætlunin undir heitinu Húnvetningur.

5. júní greiða íbúar atkvæði um sameiningu Blöndósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar. Fjölmennasta sveitarfélagið á svæðinu nú er Blönduósbær, með 950 íbúa en fámennasta sveitarfélagið er Skagabyggð. Þar búa 92 en Skagabyggð umlykur sveitarfélagið Skagaströnd. Í sameinuðu sveitarfélagi yrðu íbúarnir tæplega 1900. 

Formaður samstarfsnefndar um sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu er Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps. Hann segir að sameiningin gangi út á að fylgja þróuninni, eitt sveitarfélag sé sterkara sameinað en fjögur sitt í hverju lagi. Aðspurður segir hann að auðvitað séu kostir og gallar við sameiningu eins og alla hluti. 

„Það eru náttúrulega skólamálin sem eru alltaf viðkvæmust gagnvart sameiningu sveitarfélaga. Og í okkar tilfelli er verið að tala um að í framtíðinni yrðu Blönduskóli og Húnavallaskóli sameinaðir, sumir sjá kosti og aðrir sjá galla við það. Það er auðvitað það sem er viðkvæmast.“ 

Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.
 Mynd: RÚV
Jón Gíslason formaður samstarfsnefndar um sameiningu segir að því fylgi öryggi fyrir börn að vera í sveitaskóla en á móti geti það haft ókosti í för með sér ef skólinn er afar fámennur.

Með sameiningu vonast sveitarfélögin til þess að ná eyrum ríkisvaldsins um betri samgöngur. 

„Brýnasta hagsmunamál dreifbýlisins á þessu svæði eru samgöngubætur. Við erum með mjög mikið af lélegum tengi- og héraðsvegum og sauðfjárrækt er mjög stór þáttur í okkar dreifbýli. Hún á undir högg að sækja um þessar mundir þannig að það er eitthvað annað sem þarf að koma til með og þá þarf fólk að geta komist leiðar sinnar.“

Stjórnsýsla á tveimur stöðum

Krafan um samgöngubætur snýst hvort tveggja um öryggi og tíma en þó fyrst og fremst um að vegirnir séu bættir svo þeir verði ekki ófærir þegar verst lætur. 

Í sameinuðu sveitarfélagi á að skipta stjórnsýslunni á milli þéttbýliskjarnanna Skagastrandar og Blönduóss; starfsfólk geti haft viðveru á báðum stöðum. Það er að segja ef það verður sameinað.

Hvað gerist ef íbúar fella sameininguna? 

„Það er náttúrulega seinni tíma mál, ég get ekki svarað fyrir það,“ segir Jón. „Það er ekki mikið mál í rauninni að halda áfram með hluta af sveitarfélögunum, það er mikil vinna sem liggur að baki sameiningarvinnunnar og það er hægt að nýta sér hana áfram þó að færri sveitarfélög ætli að taka sig saman og kjósa aftur. Það er ekki flókið og yrði hægt að gera það þess vegna strax í haust ef að hitt gengi ekki.“

Víðfemt sveitarfélag í burðarliðnum

Færum okkur austar. Á Norðurlandi eystra á að kjósa um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Verkefnið gengur undir heitinu Þingeyingur og ef sameining verður samþykkt, verður það landmesta sveitarfélag landsins, 12% af flatarmáli og rúmlega 1300 íbúar. Megin atvinnuvegir eru ferðaþjónusta, landbúnaður og orkuvinnsla. Nú búa 470 í Skútustaðahreppi og 850 í Þingeyjasveit. Helgi Héðinsson oddviti Skútustaðahrepps og formaður samstarfsnefndar um sameininguna bendir á að sveitarfélögin tvö séu fámenn en landfræðilega séu þau afar víðfem. 

„Við erum að fást við krefjandi viðfangsefni á sviði stjórnsýslu og reksturs sem er oft á tíðum vandasamur og hefur orðið tæknilega flóknari með árunum,“ segir Helgi. „Þannig að við sjáum ýmis tækifæri í því að sjá hvort að það sé ávinningur af því að sameina kraftana formlega. Og það er þess vegna sem við förum í þessa vegferð og kannski ekki síst vegna þess að við höfum átt í, sér í lagi á síðustu árum, mjög miklu og góðu samstarfi. Við fyrstu hugsun og greiningu áður en við fórum í þetta formlega ferli þá sáum við að í fyrsta lagi væru líklega þónokkur tækifæri í þessu og ekki síður að væri beinlínis hlutverk okkar að gefa íbúunum valkost til framtíðar því ég held að margir og í raun og veru flestir séu þeirrar skoðunar að sveitarfélögum þurfi að fækka og að þau þurfi að vera stærri og sterkari.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Héðinsson formaður samstarfsnefndar um sameininguna segir að viðfangsefni í stjórnsýslu séu orðin meira krefjandi en áður og rekstur sveitarfélaganna tveggja sé oft vandasamur.

Spurður af hverju íbúar hafi helst áhyggjur vegna sameiningarinnar segir Helgi að það sé ekki mikið um núningsfleti og engin augljós ágreiningsmál. 

„Línurnar eru nokkuð skýrar og við höfum nálgast þetta tvíþætt af því að það sem ég nefndi er auðvitað praktíska hliðin en hin hliðin er verkefni sem við fórum í samhliða sameiningarviðræðunum sem heitir Nýsköpun í norðri. Það snýst um að íbúar ynnu þvert á sveitarfélögin að því að greina tækifæri til framtíðar á sviði nýsköpunar og þá bæði eitthvað nýtt í þeim skilningi en líka hvað við gætum gert betur í því umhverfi. Sveitarfélögin eru býsna lík að því leyti að þau byggja á orkuvinnslu, landbúnaði og ferðaþjónustu og við nálgumst þetta út frá þeim vinkli,“ segir Helgi.  

Líkt og í sennilega flestum sameiningarviðræðum eru samgöngumál sett á oddinn, bæði bættir vegir innan sveita og að einbreiðu brýrnar yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum. Helgi bendir á að þær séu hættulegar og að það þurfi að flýta þeim framkvæmdum.

Meiri fjarvinna, sjaldnar í steypukassanum

Skólana á ekki að sameina en oddvitinn segir að með sameiningu væri hægt að auka möguleika unglinga á félagsstarfi og hópíþróttum. Stjórnsýsla sveitarfélaganna tveggja er á Laugum í Þingeyjarsveit og í Skútustaðahreppi er hún í Reykjahlíð við Mývatn. Hér kemur reynslan af fjarvinnu vegna COVID til skjalanna.

„Við leggjum áherslu á að þessi þróun gangi ekki til baka,“ segir Helgi. „Við höldum áfram að nýta tæknina til að auka lífsgæði fólks og jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni við þau tækifæri sem menn hafa mikið til á höfuðborgarsvæðinu. Til þess þarf auðvitað að auka framboð starfa, sér í lagi á vegum ríkisins og sveitarfélaga og þess vegna væri auðvitað dálítið furðulegt að við værum að hafa áhyggjur af því nákvæmlega hvar steypukassinn verður sem við ætlum ekkert að nota meira en við þurfum.“

Flugmynd af Tungnafellsjökli 2015
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Tungnafellsjökull tilheyrir Þingeyjarsveit en rétt sunnan við hann tekur hin víðfemi afréttur Ásahrepps við.

Brunum nú úr Skútustaðahreppi suður um óbyggðir og inn í afrétt Sunnlendinga, Ásahrepps nánar til tekið. 

Á Suðurlandi er stefnt að atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum 25. september. Þar greiða íbúar í Ásahreppi, Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi um sameiningu í 5300 manna sveitarfélag.

Sameiningarverkefnið er kallað Sveitarfélagið Suðurland. Anton Kári Halldórsson oddviti Rangárþings eystra er formaður samstarfsnefndar um sameininguna. Eftir óformlegar viðræður var haldin rafræn kosning þar sem meirihluti vildi að sameiningarviðræðunum yrði haldið áfram. Hann segist telja að sveitarfélögunum sé betur borgið saman en sitt í hverju lagi. Nú þegar sé mikið samstarf á milli sveitarfélaganna.  

Úr 370 nefndar- og stjórnarsætum í 65 eða 70

„Ég held að við séum með 12 byggðasamlög í dag. Sem myndi fækka til muna ef til sameiningar kæmi. Það er náttúrulega mikil hagræðing í því. Í dag eru 370 nefndar- og stjórnarsæti í þessum 5 sveitarfélögum sem með sameiningu myndi fækka niður í 65 til 70 sæti. Þannig að það eitt og sér sýnir alveg hvernig þetta mál liggur,“ segir Anton Kári. 

Þó að sameiningu fylgi fjárhagsleg hagræðing tekur hann fram að það sé ekki markmiðið.

„Þetta er tímasparnaður og einföldun á stjórnsýslunni og einfaldari boðleiðir en það er bónus í þessu að þetta er líka hagræðing. En svo að það sé alveg á hreinu að sveitarfélögin fóru ekki í þessa vinnu gagngert til að ná fram hagræðingu. Það var ekki hvatinn að vinnunni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Anton Kári Halldórsson formaður samstarfsnefndar um sameiningu á Suðurlandi segir að ekki standi til að fækka skólum í sveitarfélögunum verði af sameiningu.

Anton Kári telur að hinn almenni íbúi ætti ekki að finna mikið fyrir sameiningunni. Helsta breytingin sé einföldun á stjórnsýslu og efling hennar. Það eigi líka að efla rafræna þjónustu til muna. Íbúi á Kirkjubæjarklaustri ætti ekki að þurfa að keyra á Hvolsvöll til að sækja sér þjónustu sveitarfélagsins, svo dæmi sé tekið. Þá standi ekki til fækka skólum. 

Heimastjórnir koma til greina í sameinuðu sveitarfélagi

Sveitarfélögin eru misfjölmenn. Rangárþing eystra er fjölmennast með tæplega 2000 íbúa. Í Ásahreppi búa 270 manns. Við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi í Múlaþing var tekin upp nýlunda, búnar til kjörnar heimastjórnir, með það að markmiði að íbúar á hverjum stað geti haft áhrif á sitt nánasta umhverfi.

„Það er einmitt eitt af því sem við þurfum núna að skoða í næstum skrefum hvernig við byggjum upp strúktúrinn í stjórnsýslunni og það er eitthvað sem kemur klárlega til greina en eigum eftir að skoða betur,“ segir Anton Kári. „Á íbúafundunum sem við héldum skiptist fólk aðeins í fylkingar um hvort rétt væri að hafa heimastjórnir eða ekki. Sumir töluðu fyrir því að þeir vildu vera partur af stóru öflugu sveitarfélagi en ekki litlar einingar í gömlu byggðarlögunum en þetta er einmitt ákvörðun sem á eftir að taka og stilla upp.“ 

En hvað ef sameiningin verður felld í einu sveitarfélagi?

„Ég á klárlega von á því að fari svo að tillagan verði felld í einu eða fleiri sveitarfélögum, muni hin sveitarfélögin sem kusu með sameiningu halda áfram og hefji sína vinnu að nýju, byggða á þeim gögnum sem búið er að vinna.“ 

 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV