Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég varð bara stelpa og mér fannst það æðislegt“

Mynd: - / Mús og köttur

„Ég varð bara stelpa og mér fannst það æðislegt“

04.04.2021 - 14:00

Höfundar

Ragnar Kjartansson varð fyrsti karlmaðurinn til að setjast á skólabekk í Hússtjórnarskólanum. „Mér fannst þessi horfni heimur alltaf svo áhugaverður. Þessi heimur húsmóðurinnar sem var svo mikið að hverfa á þessum árum.“

Húsmæðraskólinn er íslensk heimildarmynd, eftir Stefaníu Thors, um hinn horfna heim íslensku húsmóðurinnar og hvernig hlutverk Hússtjórnarskólans hefur breyst í áranna rás. Í myndinni, sem sýnd er á RÚV í kvöld, er fjallað um blómaskeið skólans og mikilvægt hlutverk hans fyrir húsmæður um miðbik síðustu aldar. Samhliða því er fylgst með nemendum sem hófu nám í skólanum 2016.

Einnig er rætt við nemendur fyrri ára, eins og Ragnar Kjartansson listamann, sem árið 1997 settist á skólabekk í Hússtjórnarskólanum fyrstur karla.

„Það kveikti í mér að sækja um að fara í þennan skóla,“ segir Ragnar. „Þetta var mjög magnað. Þetta var svona eins og að stíga inn í einhvern öfugan Mad Men heim að koma hérna.“

Ragnar segist hafa orðið var við áhyggjur hjá skólastjóranum af því hvernig ætti að eiga við karlmann í skólanum. „Þannig að hún spurði mig hvort að það væri í lagi fyrir mig að vera með í þrifum á fimmtudögum, hvort mér fyndist það niðurlægjandi eða eitthvað svoleiðis. Það var mjög áhugavert því hún spurði að því í algjörri einlægni, hún bara hafði áhyggjur af því að það yrði eitthvað vesen. Einhver karlandskoti kæmi hérna í skólann og bara: Þarf ég að vera að þrífa klósett?“

Námið hafði mikil áhrif á sýn Ragnars á húsverk og kenndi honum að hætta skussaskapnum. „Ef maður skussast svona í gegnum hlutina þá verður bara lífið svo miklu leiðinlegra.“

Kennararnir voru eðlilega vanir að ávarpa nemendahópinn í kvenkyni, sem gat orðið vandræðalegt í fyrstu. „Ég var náttúrulega bara einn með öllum þessum stelpum hérna, þannig að ég varð bara stelpa og mér fannst það æðislegt,“ segir Ragnar. „Svo hættu kennararnir að hafa áhyggjur af þessu þannig að ég varð bara einn af stelpunum.“ 

Heimildarmyndin Húsmæðraskólinn verður sýnd á RÚV í kvöld, 4. apríl klukkan 20:55.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Frumsýnir Húsmæðraskólann í Toronto

Borgarbyggð

Fyrrum húsmæðraskóla breytt í hótel

Austurland

Stjórnvöld viðurkenni hússtjórnarnám