20% hafa fengið hlutabætur

Meira en 4.300 fyrirtæki hafa nýtt sér stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins og 20% allra á vinnumarkaði hafa fengið hlutabætur. Um 90% þess stuðnings sem stjórnvöld hafa greitt vegna launa á uppsagnarfresti hafa runnið til fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Áætlað er að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í ár og fyrra muni samtals nema hátt í 200 milljörðum og þar af hafa um 52 milljarðar verið í formi beinna fjárveitinga. 

Skattgreiðslum hefur verið frestað um 12 milljarða og ríkistryggð lán hafa verið veitt fyrir sömu upphæð. 25 milljarðar hafa verið greiddir úr séreignasjóðum og tekjufallstyrkir nema 9 og hálfum milljarði.

Frá upphafi faraldursins hafa um 36.000 hafa fengið hlutabætur, sem er um 20% fólks á vinnumarkaði. Þetta er umfangsmesta aðgerðin og hefur hingað til kostað ríkissjóð um 28 milljarða. Stuðningur ríkisins vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti nemur rúmum 12 milljörðum og þar er Icelandair það fyrirtæki sem hefur fengið mest - eða um þrjá milljarða.

Um tvær af hverjum þremur krónum sem varið hefur verið í þessar aðgerðir hafa farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu, það er misjafnt eftir tegundum aðgerða hvað hlutfall ferðaþjónustunnar er hátt. Til dæmis 87% þeirrar upphæðar sem varið hefur verið til greiðslu launa á uppsagnarfresti,  73% upphæða stuðnings- og viðbótarlána og 71% alls þess sem varið hefur verið í tekjufallsstyrki.

Í mars var svo opnað fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki, sem ætlaðir eru þeim sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Hátt í 1.300 hafa sótt um styrkina og þegar nema greiðslur vegna þeirra einum milljarði.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir