Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telja ávinning af bóluefni AstraZeneca meiri en áhættu

03.04.2021 - 13:00
epa09108285 A nurse prepares a dose of Vaxzevria (formerly Covid-19 vaccine AstraZeneca) against COVID-19 during the vaccination at Bucharest Polyclinic in Skopje, Republic of North Macedonia has started mass inoculation against COVID-19 with 24,000 doses of the Vaxzevria (previously COVID-19 Vaccine AstraZeneca) vaccine, which arrived in Skopje on 28 March through the World Health Organization (WHO) COVAX program.  EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrjátíu af 18.000.000 fengu blóðtappa eftir að þau fengu bólusetningu með AstraZeneca í Bretlandi og sjö þeirra eru látin. Breskur læknir segir að meirihlutinn séu ungar konur og þær séu líklegri til að fá blóðtappa almennt. Þá auki getnaðarvarnarpillan líkur á blóðtappa umtalsvert, en konur hætti ekki að taka pilluna fyirr því.

Tölur um blóðtappa eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í Bretlandi voru kynntar í gær og taka til fólks sem var bólusett fyrir 24. mars, sem eru ríflega 18 milljónir. Í morgunþætti breska ríkisútvarpsins BBC í morgun sagði Sarah Jarvis læknir að enn sé ósannað að bólusetning sé orsök blóðtappanna. Tilkynnt sé um alls kyns mögulegar aukaverkanir, meðal annars áfengiseitrun og óléttu „Fólk tilkynnir alls kyns hluti sem gerast stuttu eftir bólusetningu, en það þýðir ekki að þeir hefðu ekki gerst hvort sem er,“ segir Jarvis. Hún segir að meirihluti þeirra sem hafa fengið blóðtappa í Bretlandi séu ungar konur og því sé mikilvægt að halda til haga vegna þess að þær séu líklegri til þess að fá blóðtappa almennt. „Ef við lítum á getnaðarvarnarpilluna, þá aukast líkur á að fá blóðtappa frá 1 af 5.000 upp í 1 af 800 í sumum tilvikum - samt hætta konur ekki að taka pilluna,“ segir Jarvis. Til samanburðar hefur 1 af hverjum 600.000 fengið blóðtappa eftir bólusetningu með Astrazeneca í Bretlandi.

COVID-19 auki líkur á blóðtappa

Enn fremur sagði Linda Bauld, prófessor hjá Edinborgarháskóla, í sama þætti að ef fólk smitast af COVID-19 þá auki það eitt og sér líkur á blóðtappa. Ekki stendur til að stöðva eða takmarka notkun á Astrazeneca í Bretlandi, breska lyfjastofnunin metur það svo að ávinningur sé enn meiri en áhætta. Í ljósi þess að ungar konur eru meirihluti þeirra sem fá blóðtappa hafa mörg ríki ákveðið að gefa aðeins eldra fólki bóluefni Astrazeneca. Til dæmis hér á Íslandi þar sem einstaklingar eldri en 70 ára fá bóluefnið.  

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón
Kári Stefánsson var bólusettur með AstraZeneca á dögunum.
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV