Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sex friðargæsluliðar og hermenn vegnir í Malí

03.04.2021 - 04:46
epa08616873 Colonel Malick Diaw vice-president of the CNSP (National Committee for the Salvation of the People) attends a mass gathering of coup supporters from an alliance of opposition politicians and civil society, the M5-RFP  (Rally for Patriotic Forces) who are in support of the CNSP in Bamako, Mali 21 August 2020. Mali President Ibrahim Boubakar Keita resigned 19 August 2020 after a coup by the military on 18 August 2020 with the National Committee for the Salvation of the People (CNSP) now in control.  EPA-EFE/LIFE TIEMOKO
 Mynd: epa
Fjórir friðargæsluliðar voru vegnir í árás íslamskra vígamanna á bækistöð þeirra í norðanverðu Malí í dögun í gær, föstudag. Tveir hermenn í malíska stjórnarhernum voru felldir í annarri árás íslamskra vígamanna í gær, inni í miðju landi.

 

Í yfirlýsingu frá friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Malí, skammstafað MINUSMA, segir að friðargæsluliðar hafi „sýnt mikið hugrekki þegar þeir brutu á bak aftur flókna árás margra þungvopnaðra hryðjuverkamanna." Í tilkynningunni segir að margir úr liði árásarmannanna hafi fallið í árásinni, og lík þeirra verið skilin eftir. 19 friðargæsluliðar særðust í átökunum, auk þeirra fjögurra sem féllu.

Fjölmennt árásarlið

AFP-fréttastofan hefur eftir ónefndum heimildarmanni innan friðargæslunnar að árásarliðið hafi verið fjölmennt; um eða yfir 100 þungvopnaðir menn á mótorhjólum og bílum. „Bardaginn stóð í þrjár klukkustundir ... sprengjuvörpur, skothríð ... tilraun til sjálfsmorðsárásar með bílsprengju," hefur AFP eftir heimildarmanninum, sem segir að um 20 árásarmenn hafi fallið í valinn.

Önnur árás inni í miðju landi

Seinna þennan sama morgun féllu tveir malískir hermenn og tíu særðust í árás hryðjuverkamanna um miðbik landsins. Árásaraðferðin var ekki ósvipuð og í fyrri árásinni, en umfangið öllu minna. AFP hefur eftir sjónarvotti að þungvopnaðir menn hafi komið brunandi á mótorhjólum og hafið skothríð á fámenna varðstöð hersins, staldrað þar við stutta stund og hraðað sér svo í burtu eftir bökkum árinnar Níger.