Mýflugurnar trufluðu mest við kortlagningu Íslands

Mynd: - / Úr einkasafni

Mýflugurnar trufluðu mest við kortlagningu Íslands

03.04.2021 - 08:00

Höfundar

Náttúran snerist gegn bílstjóra Já 360° þegar hann keyrði um Ísland og myndaði götur landsins.

Árið 2010 var Google Maps-bíllinn eltur af köfurum með heygaffla í Björgvin. Í upphafi var ekki ljóst hvað mönnunum gekk til en töldu sumir að um mótmæli væri að ræða enda Google ekki alltaf á beinu brautinni þegar kemur að friðhelgi einkalífsins. Þetta reyndist þó saklaus hrekkur.

Kafarar með heygaffla urðu ekki á vegi Snæbjörns V. Lilliendahl þegar hann keyrði Já 360° bílinn, árin 2017 og 2019 um landið. Þó þurfti hann að kljást við ýmsar hindranir. Rætt er við Snæbjörn í Ratsjá á Rás 1, útvarpsþáttaröð í fjórum hlutum, þar sem Tómas Ævar Ólafsson og Snorri Rafn Hallsson rannsaka hlutverk, sögu og áhrif eftirlits út frá vísindalegu sjónarhorni. 

„Já 360° er upplýsingaverkefni til þess að veita myndasýn á landinu, það er minn skilningur,“ segir Snæbjörn. Verkefni á borð við Google Street View og Já 360° gegna einmitt þessu mikilvæga hlutverki, þau hjálpa notendum að sjá fyrir okkur ferðalög á kunnuga jafnt sem ókunnuga staði og veita okkur mun meira sjálfsöryggi á ferð okkar þangað. Þetta lætur okkur líða eins og við þekkjum ókunnuga svæðið, svona nokkurn veginn. En hvernig er svona upplýsingum safnað?

„Mitt hlutverk var að keyra bílinn og sjá um myndatökuna í því ferli. Já.is var búið að hanna allan hugbúnaðinn sem þurfti til svo þurfti náttúrulega bara að keyra þetta og sjá til þess að þetta virkaði. Það var mitt hlutverk. Maður var með fyrir fram ákveðin svæði sem maður tók. Það er ekki hægt að keyra þegar sólin er of lágt á lofti. Þannig að glugginn milli 10 og 18 er kjörvinnutíminn. Svo er maður bara að keyra, slappa af, hlusta á podcast og njóta þess að upplifa nýja staði.“

Snæbjörn líkir vinnunni við fornfrægan tölvuleik. „Þeir náðu að gera þetta rosalega skemmtilegt. Þú hefur séð hvernig kúlurnar eru í Pac Man sem maður á að éta. Ég var með svona kortaviðmót þar sem ég þurfti að éta upp allar bláu línurnar með því að keyra þær. Maður byrjaði sumarið með eitt rosalega blátt kort af Íslandi.“

Það mátti ekki mikið bregða út af til að verkið frestaðist. „Þessi upptaka gengur ekki í rigningu, um leið og það fer að dropa að þá er ekki hægt að taka upp. Þannig að við lentum í því að skilja bílinn eftir á Egilsstöðum og fljúga heim í nokkra daga þangað til spáin var orðin betri. Þannig að þetta er bundnara við veðrið en mann hefði grunað.“

Íslenska rigningin var ekki eina hindrunin á vegi Snæbjörns í verkefninu. „Það gat alltaf eitthvað klikkað. Tölvan gat dottið út og netsambandið við þjóninn, svo gat ég klikkað, sem var eiginlega algengast, að maður gleymdi að ýta á upptöku. Helsta vandamálið voru eiginlega flugurnar.“

Við þekkjum það eflaust flest þegar við keyrum um landið í góðu veðri að þá eiga flugur það til að klessast utan í glerið á framrúðu bifreiðarinnar. Hjá Snæbirni hrönnuðust þær ekki aðeins upp á rúðunni heldur líka á linsu og skyggðu þannig á ljósmyndirnar sem hann tók. Því þurfti hann að stöðva bílinn og þurrka af myndavélinni, bakka síðan tilbaka til að vinna upp allar myndirnar sem fluguklessurnar höfðu eyðilagt.

„Nálægt Mývatni var þetta rosalega leiðinlegt. Ég komst að því að þá borgaði sig að keyra á 30 kílómetra hraða, þannig að þær festust ekki á myndavélarnar.“ Flugurnar fórnuðu sér, reyndar ekki sjálfviljugar, og skyggðu á útsýnið. En mikilvægasta spurningin er: Hvað gerði fólkið? Hver voru helstu viðbrögð vegfarenda við bílnum?

„Maður varð var við forvitni, ekki spurning. Ég áttaði mig á því að þetta væri ferli sem fólk færi í gegnum. Fyrst sér það gulan bíl með einhverju skrýtnu ofan á. Eftir tvær sekúndur fattar það hvað þetta er og þá færðu viðbrögð þeirra. Flestum finnst nú gaman að sjá eitthvað svona spennandi, fer að veifa og setja sig í pósur, einn og einn verður vandræðalegur, lítur undan og hleypur inn. Það var allur gangur á. Það sem ég lenti mest í úti á landi var það að fólk fór út á götu til að stoppa bílinn. Þá hélt ég að það væri að koma leiðinlegt samtal. En þá var fólk bara svo forvitið.“

Það eru nefnilega ekki endilega áhyggjur sem vakna hjá okkur þegar við gerum okkur grein fyrir því hvað er í gangi. Það virðist miklu frekar vera forvitni sem kviknar þegar við sjáum að verið er að festa okkur eða húsið okkar, götu eða bæinn á filmu, að verið sé að festa litla mynd af hversdagsleikanum hér og nú í áþreifanlega heimild.